Ef fyrirhugaðar taxtahækkanir Lífskjarasamningsins verða að veruleika á næstu tveimur árum er rekstrargrundvelli veitingastaða á Íslandi verulega ógnað. Þetta má lesa úr skýrslu sem unnin var af endurskoðunarfyrirtækinu KPMG fyrir hin nýstofnuðu Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði og Fréttablaðið hefur undir höndum.

Í skýrslunni kemur fram að ef ekki eigi að velta auknum launakostnaði út í verðlag verði afkoma veitingageirans á Íslandi orðin neikvæð strax á næsta ári. Jafnframt er launakostnaður veitingareksturs hér sá langhæsti á Norðurlöndunum, enda taki fyrirkomulag yfirvinnutaxta veitingageirans á Íslandi ekki tillit til hás hlutfalls hlutastarfsmanna sem eru jafnan með lágan starfsaldur, líkt og gert er í öðrum löndum.

Samkvæmt skýrslu KPMG hefur veitingageirinn á Íslandi sérstöðu, sem birtist meðal annars í því að taxtahækkanir Lífskjarasamningsins koma einkar illa við rekstrarforsendur fyrirtækja á veitingamarkaði. Tæplega 60 prósent allra vinnustunda í geiranum eru unnin utan hefðbundins dagvinnutíma, sem gerir það að verkum að margföldunaráhrif verða í launakostnaði við taxtahækkanir.

Skilgreining yfirvinnutímabils er jafnframt mun víðari á Íslandi en í nágrannalöndunum. Á Íslandi er 33 prósenta álag á dagvinnutaxta eftir klukkan 17 á virkum dögum og 45 prósenta álag um helgar. Í samanburði hefst kvöldvinna eftir klukkan 20 á kvöldin í Svíþjóð og helgartaxti gildir eftir klukkan 16 á laugardögum auk sunnudaga.Kvöldvinnutaxtar í Svíþjóð taka svo tillit til aldurs og starfsaldurs starfsmanna.

Bæði í Svíþjóð og á Íslandi eru veitingastaðir yfirgnæfandi mannaðir af ungu fólki sem er að vinna með skóla, en á Íslandi eru 65 prósent starfsmanna veitingageirans undir 25 ára aldri, samanborið við 17,4 prósent á almennum vinnumarkaði. Launakostnaður veitingageirans í Svíþjóð er hins vegar um 25 prósent af tekjum í Svíþjóð, á meðan hann er yfir 40 prósent á Íslandi.

Ekki tekið tillit til óvenjulegs vinnutíma hér á landi

„Skýrslan dregur fram sérstöðu veitingageirans, sem felst í samsetningu vinnuaflsins og vinnustunda utan hefðbundins dagvinnutíma,“ segir Svanbjörn Thoroddsen, einn skýrsluhöfunda og meðeigandi KPMG. „Þess vegna er mikilvægt að kjaramál þessa geira verði rædd aðskilið frá öðrum almennum störfum sem byggja á dagvinnu.

Þegar við lítum til annarra landa er kostnaður við grunnlaun á veitingamarkaði mjög sambærilegur. Hins vegar er ekki tekið tillit til óvenjulegs vinnutíma og samsetningar vinnuafls veitingageirans hér á landi líkt og gert er annars staðar. Þess vegna er launakostnaðarhlutfall hér svo miklu hærra,“ segir Svanbjörn.

Rekstrarforsendur greinarinnar verða vart fyrir hendi eftir að næstu fyrirhuguðu launahækkanir kjarasamninga koma til framkvæmda.

Í skýrslunni segir að ef heldur fram sem horfir með þær taxtahækkanir sem fram undan eru muni launahlutfall íslenska veitingageirans verða komið í um 50 prósent á árinu 2022, sem yrði að öllum líkindum það hæsta á byggðu bóli. Afkoman verði þá í besta falli í kringum núllið, ef tekst að velta launahækkunum út í verðlag. Líklegra er að veitingastaðir geti ekki staðið undir launakostnaði og einfaldlega muni þurfa að loka þeim í stórum stíl.

„Þessar tölur sýna vel að ekki hefur verið tekið tillit til strúktúrs veitingarekstrar við gerð kjarasamninga á síðustu árum, heldur þvert á móti,“ segir Hrefna Björk Sverrisdóttir, sem rekur veitingahúsið Rok: „Rekstrarforsendur greinarinnar verða vart fyrir hendi eftir að næstu fyrirhuguðu launahækkanir kjarasamninga koma til framkvæmda án þess að breytingar verði gerðar á uppbyggingu yfirvinnutaxta og þeir færðir í svipað horf og hjá öðrum þjóðum.“

Sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda hafa komið sérstaklega illa við fyrirtæki á veitingamarkaði. Í umsögn áðurnefndra samtaka til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps um fjárstuðning við minni rekstraraðila sagði meðal annars:

„Fyrir veitingastaði, sem byggja kjarnastarfsemi sína á að taka á móti gestum í sal, er það ígildi lokunar að hámarka gestafjölda við 20-50 gesti [innsk. nú 10 gesti] hverju sinni að frádregnum starfsmönnum, skerða opnunartíma og setja á nálægðartakmörk á milli gesta. Enginn veitingastaður heldur það út svo dögum, vikum og jafnvel mánuðum skiptir að starfa við slíkar hömlur.“