Veitingamenn vilja fá sérkjarasamninga eins og tíðkast hjá flugmönnum, flugfreyjum, sjómönnum og víðar. Þetta segir Hrefna Björk Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri veitingastaðarins Roks við Frakkastíg og stjórnarmaður í samtökum fyrirtækja í veitingarekstri, í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur var 21 í gærkvöldi á Hringbraut.

Hún segir að starfsemin sé með öðru sniði en hefðbundið er á vinnumarkaði því flestir starfsmenn veitingahúsa séu við vinnu um kvöld og helgar. Af þeim sökum sé ekki hægt að miða kjörin við hefðbundið skrifstofu- og verslunarfólk.

„Við viljum stöðva þessa [kjara]samninga og gera nýja samninga strax,“ segir hún og vill miða við fyrirkomulagið í nágrannalöndunum. Launakostnaður hér á landi sé um 50 prósent sem hlutfall af tekjum en í Svíþjóð sé hlutfallið um 25 prósent. „Þetta er mikill munur,“ segir hún.


Hrefna Björk segir að hérlendis fái starfsmaður 45 prósent álag fyrir að mæta til vinnu klukkan tólf á laugardegi en í Svíþjóð sé miðað við álagsgreiðslur hefjist klukkan fimm.