Fyrirtækjum í veitingarekstri var ekki sinnt nógu vel innan Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtaka atvinnulífsins (SA). Sérstaklega eftir lífskjarasamningana sem reyndust veitingamönnum dýrkeyptir. Þess vegna voru Samtök fyrirtækja í veitingarekstri stofnuð.

Þetta segir Hrefna Björk Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri veitingastaðarins Roks við Frakkastíg og stjórnarmaður í samtökum fyrirtækja í veitingarekstri, í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur var á miðvikudagskvöld klukkan níu á Hringbraut.

Hún segir að það veitingamarkaðurinn samanstandi af þúsund fyrirtækjum sem séu flest lítil eða meðalstór. Það hafi ekki verið nógu mörg fyrirtæki í veitingarekstri innan samtakanna og þeim hafi ekki verið sinnt nógu vel, eins og fyrr segir. „Þar af leiðandi vorum við heimilislaus inna SAF og SA.“

Samtök fyrirtækja í veitingarekstri er fyrir utan Samtök atvinnulífsins. Hrefna Björk segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort þau muni tilheyra þeim, starfa við hlið SA eða standa fyrir utan þau. Það muni fara eftir því hvað þjóni best hagsmunum veitingamanna.

Hrefna segir að um 80 prósent af starfsfólki í veitingageiranum starfi um kvöld og helgar. Flestir fái því alltaf greitt álag. Hækkanir á grunntaxta í kjölfar lífskjarasamningsins hafi því mikil áhrif á launakostnað veitingahúsa.

Voru komin að þolmörkum fyrir Lífskjarasamninginn

„Fyrir síðustu [launa]hækkanir var greinin komin að þolmörkum,“ segir hún. Það hafi ekki verið innistaða fyrir launahækkanir. Lífskjarasamningarnir hafi gert það að verkaum að hlutfall launa af tekjum varð um 50 prósent en hlutfallið sé 20-30 prósent í nágrannalöndum okkar.

„Við erum framleiðslufyrirtæki. Tökum inn hráefni og breytum því í vöru og seljum áfram,“ segir Hrefna Björk. Launahlutfallið gæti gengið upp í rekstri ráðgjafafyrirtækja, sem nýti ekki hráefni við sína vinnu, en ekki í veitingarekstri.