Lækkandi álverð mun hafa neikvæð áhrif á tekjumyndun HS Orku og ON Power á þessu ári, en veiking krónunnar vinnur á móti þeirri þróun að einhverju leyti. ON Power, dótturfélag Orku náttúrunnar, hefur keypt áhættuvarnir gegn lækkandi álverði, sem mildar höggið upp að vissu marki.

Bæði ON Power og HS Orka eru með orkusölusamninga við Norðurál á Grundartanga, sem tengdir eru verðþróun áls. Lengi vel var Landsvirkjun með sambærilega samninga, en fyrirtækið hefur á síðustu árum horfið frá því og tengt orkuverð til stórnotenda við neysluverðsvísitölu í Bandaríkjunum, eða Nord Pool-raforkumarkaðinn í Evrópu.

Fastverðssamningar tengdir við verðlag í Bandaríkjunum, hafa eðli máls samkvæmt haldist nokkuð stöðugir að undanförnu, þó Landsvirkjun hafi að vísu veitt ríflegan afslátt til stórnotenda að undanförnu, til að bregðast við erfiðum markaðsaðstæðum.

Nord Pool-raforkuverð hefur hins vegar hrunið að undanförnu, vegna minnkandi eftirspurnar rafmagns á meginlandinu og mikillar vætutíðar í Skandinavíu, þar sem nokkur fjöldi vatnsaflsvirkjana er starfræktur. HS Orka og ON Power eru því að fá nokkuð meira fyrir sinn snúð frá stórnotendum um þessar mundir, samanborið við Landsvirkjun.

Álverð niður frá áramótum

Samkvæmt gögnum frá London Metal Exchange stóð álverð í tæplega 1600 Bandaríkjadölum á tonnið um miðbik þessarar viku, samanborið við 1800 dali undir lok síðasta árs. Er því um að ræða lækkun upp á ríflega 11 prósent.

Í ársreikningi HS Orku fyrir árið 2019 er að finna næmnigreiningu er snýr að þróun álverðs. Þar segir að 10 prósenta lækkun álverðs myndi hafa neikvæð áhrif upp á 930 milljónir króna á hagnað fyrirtækisins eftir skatta, en hagnaður ársins 2019 nam 9,6 milljörðum.

Þó verður að hafa í huga að á árinu 2019 seldi HS Orka þriðjungshlut sinn í Bláa Lóninu fyrir um 15 milljarða króna. Rekstrartap síðasta árs fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir var um 1,3 milljarðar króna. Einskiptiskostnaður vegna virðisrýrnunar lífeyriseigna upp á 906 milljónir króna var þó tekinn í gegnum rekstrarreikning á síðasta ári, en þar er einnig um einskiptiskostnað að ræða.

Lækkun álverðs sem er mælt í Bandaríkjadölum, er að einhverju leyti vegna styrkingar Bandaríkjadals gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Þar að auki hefur krónan veikst á þessu ári gagnvart öðrum gjaldmiðlum, sem mildar höggið á rekstur HS Orku vegna lækkandi álverðs, segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar HS Orku.

Álverð er í lægstu lægðum núna, meðal annars vegna mikillar framleiðslu í Kína [...] Álstaflar standa víða um heim á kaja og hreyfast ekki, það setur þrýsting á verð.

„Álverð er í lægstu lægðum núna, meðal annars vegna mikillar framleiðslu í Kína. Síðan hefur orðið mikill, tímabundinn samdráttur eftirspurnar vegna stöðvunar margs konar iðnaðar víða um heim í mars, apríl og maí. Álstaflar standa víða um heim á kaja og hreyfast ekki, það setur þrýsting á verð,“ bætir Jóhann Snorri við.

Samanlagt, uppsett afl jarðvarmavirkjana HS Orku er 175 megavött, en þar eru um 76 megavött helguð álveri Norðuráls við Grundartanga.

Álverðsvarnir ON

Eini stórnotandinn sem er í viðskiptum við ON er álver Norðuráls við Grundartanga, en nærri helmingur alls rafmagns sem Grundartangi notar að jafnaði, kemur frá ON. „Álverð hefur farið lækkandi undanfarið en Bandaríkjadollar hefur hins vegar styrkst gagnvart íslensku krónunni. ON er með virka álvarnarsamninga, sem minnka tekjusveiflur vegna álverðsþróunar,“ segir Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON, móðurfélags ON Power. Hagnaður ON Power á síðasta ári var tæplega fimm milljónir Bandaríkjadala, eða um 700 milljónir króna. 


Enginn afsláttur til smásala


Enginn afsláttur hefur verið veittur á raforku sem Landsvirkjun selur til íslensku orkusmásalanna, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Um 15-20 prósent af þeirri orku sem Landsvirkjun selur fer til smásala, sem selja svo orku áfram til heimila og annarra smærri notenda. Alls eru sjö fyrirtæki sem sinna smásölu raforku á Íslandi: HS Orka, Orka náttúrunnar, Orkusalan, Fallorka, Orkubú Vestfjarða, Rafveita Reyðarfjarðar, Íslensk orkumiðlun og Orka heimilanna. Að tveimur síðastnefndu slepptum eru allir smásalar raforku á Íslandi með eigin framleiðslu, en kaupa breytilega orku af Landsvirkjun þegar þeirra eigin framleiðsla annar ekki eftirspurn.

Heildsöluverð Landsvirkjunar til smásala er breytilegt yfir árið, en nemur á bilinu 4,5-6 krónum á kílóvattstund, samkvæmt verðlista frá 2019, sem jafngildir um 32-43 Bandaríkjadölum á megavattstund. Sökum lækkunar krónunnar gagnvart Bandaríkjadal hafa tekjur Landsvirkjunar vegna heildsölu til smásala engu að síður lækkað í uppgjörsmynt Landsvirkjunar, þar sem sú orka er seld í krónum.