Há veiðigjöld á bolfisktegundir hefur leitt af sér stóraukna samþjöppun í eignarhaldi bolfisktegunda, að sögn Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims. Guðmundur er í viðtali í sjónvarpsþætti Markaðarins á Hringbraut klukkan 21 í kvöld, þar sem viðtalið birtist í heild sinni.

„Ég hef ekki verið sáttur hvernig útfærslan er, af því að veiðigjöldin eru lögð á fisktegundir en ekki fyrirtæki. Þeir sem veiða ákveðna fisktegund borga veiðigjaldið. Veiðigjöldin eru svo mjög mismunandi eftir fisktegundum."

,,Sumar tegundir lenda illa í þessu og þar af leiðandi fyrirtækin. Sérstaklega fyrirtækin hringinn í kringum landið. Þess vegna hefur orðið svona mikil samþjöppun í bolfisknum, af því að veiðigjöldin eru svo há á ákveðnar tegundir og þar af leiðandi lenda mörg [smærri] fyrirtæki illa í því,“ segir Guðmundur.

Guðmundur nefnir einnig að íslenskur sjávarútvegur sé undantekning í þeim skilningi að hagnaður myndist í greininni, ólíkt því sem tíðkast víða um heim:

„Ég er alveg sáttur við skatta á auðlind svo við misnotum hana ekki. En Íslendingar geta alveg verið stoltir af sínu fiskveiðistjórnunarkerfi af því erum ein örfárra þjóða í heiminum sem borgar veiðigjald af sjávarútvegi. Í flestum ríkjum heims er þetta ríkisstyrkt. Við þurfum ekki að horfa lengur en til Evrópusambandsins, þar er öll útgerð ríkisstyrkt og borgar ekki neitt.“

Sjáið klippu úr viðtalinu hér fyrir ofan.


Markaðurinn er sýndur alla þriðjudaga á Hringbraut klukkan 21.