Stytting vinnuvikunnar á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera hefur hækkað launavísitölu Hagstofu Íslands um 1,36 prósent frá janúar 2020. Hækkun launavísitölu opinberra starfsmanna er meiri, eða um 1,67 prósent í samanburði við 1,22 prósenta hækkun launavísitölu almenna vinnumarkaðarins, vegna vinnutímastyttingarinnar. Áhrif vinnutímastyttingar hjá hinu opinbera eiga eftir að koma betur fram og munu þau líklega auka enn muninn milli opinbera og almenna markaðarins.

„Það liggur fyrir að stytting vinnuvikunnar verður kostnaðarsamari hjá hinu opinbera en á almennum vinnumarkaði,“ segir Hannes G. Sigurðsson, ráðgjafi stjórnar og framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins.

Hagstofan.PNG

Á almenna vinnumarkaðinum er heimilt að gera samkomulag um styttingu vinnutíma á hverjum vinnustað, samhliða niðurfellingu kaffitíma á grundvelli svonefnds fyrirtækjaþáttar kjarasamnings. Gengið er út frá því að slíkt samkomulag skili báðum aðilum ávinningi. Umfang slíks samkomulags liggur ekki fyrir, það er í hve mörgum fyrirtækjum hefur verið samið um styttingu, en hjá Samtökum atvinnulífsins er áformað að gera kannanir meðal félagsmanna svo að unnt sé að átta sig á umfanginu.

Bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði er unnt að stytta vinnuvikuna niður í allt að 36 vinnustundir. Styttingin er tvíþætt. Annars vegar er vinnuvikan stytt um 1 klukkustund og 5 mínútur á viku, og hins vegar er hægt að semja um niðurfellingu kaffitíma gegn styttingu um 2 klukkustundir og 55 mínútur.

„Í gögnum Hagstofunnar eru 65 mínúturnar teknar með í reikninginn en ekki þessar tæpu þrjár klukkustundir sem viðveran getur styst um vegna niðurfellingar formlegra kaffitíma,“ segir Hannes.

Þá hefur Hagstofan enn sem komið er einungis lagt bráðabirgðamat á áhrif styttingar vinnutíma vaktavinnufólks hjá hinu opinbera, sem tók gildi í maí. Bráðabirgðamatið er að styttingin hækki launavísitölu opinberra starfsmanna um 0,3 prósent en hækkunin verður líklega meiri þegar upp er staðið, að sögn Hannesar.

Þá er áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar vegna styttingar vinnuvikunnar á árinu 2021 samtals 520 milljónir króna.

Dagvinnutími óvíða styttri en hér

Lengi vel samræmdust mælingar vinnutíma hér ekki mælingum í öðrum löndum og með röng gögn að leiðarljósi töldu sumir að á Íslandi þekktist einhver lengsti vinnutími í Evrópu. Staðreyndin er hins vegar sú að umsaminn dagvinnutími er óvíða styttri en hér á landi, eins og kom í ljós þegar gögnin höfðu verið leiðrétt til samræmis við önnur lönd. Meðal ársvinnutími er á pari við hin Norðurlöndin, samkvæmt gögnum frá OECD.

vinna.PNG

Hærri launakostnaður en gert var ráð fyrir

Viðskiptaráð benti á það í umsögn um vinnustyttingarfrumvarpið fyrir tæpum þremur árum að grunnforsenda mikillar vinnutímastyttingar væri framleiðniaukning. Skynsamlegra væri að auka framleiðni til að skapa hægt og bítandi svigrúm til styttri vinnutíma.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir markmiðið með styttingu vinnuvikunnar göfugt en of snemmt sé að dæma um endanlegan árangur breytingarinnar.

„Við fyrstu sýn virðist þetta svokallaða mönnunargat sem nú er talað um, einfaldlega verða leyst með hærri launakostnaði, annaðhvort vegna hærri launa þeirra sem taka á sig vinnu sem nemur styttingunni, eða vegna þess að ráða þarf fleiri til að fylla upp í þær stundir sem vantar,“ segir Svanhildur.

„Við fyrstu sýn virðist þetta svokallaða mönnunargat sem nú er talað um, einfaldlega verða leyst með hærri launakostnaði“

„Niðurstaðan sem stendur, er því í mörgum, ef ekki flestum, tilfellum hærri launakostnaður, sem ekki var gert ráð fyrir þegar þessar breytingar voru lagðar fram.“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur gefið út að áætlaður kostnaður við styttingu á vinnuviku vaktavinnufólks hjá ríkinu sé um 4,2 milljarðar króna á ársgrundvelli.

„Við erum með endurskoðunarákvæði 2023 þar sem á að fara yfir árangurinn af þessu. Það mun reyna á það í millitíðinni, hvernig allir þeir sem að málinu koma eru tilbúnir til að láta dæmið ganga upp. Því ef útfærslan mun leiða til mun meiri kostnaðar fyrir ríkið heldur en að var stefnt, þá eru í sjálfu sér forsendurnar sjálfar brostnar og það mun kalla á einhvers konar breytingu þegar þar að kemur,“ sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi í lok apríl.

Vinnutímastyttingin getur leitt af sér allt að 780 stöðugilda mönnunargat hjá ríkinu. Stærsti hópurinn er á Landspítalanum, sem metur fjárþörf vegna styttingar vinnuviku í kringum tvo milljarða króna. Ráða þarf meira en 200 starfsmenn til þess að bregðast við breytingunum.