Innlendir verðbréfasjóðir furða sig á því hversu mikið Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, fengu úthlutað í hlutafjárútboði bankans. Viðmælendur Fréttablaðsins sem starfa við sjóðastýringu segja óeðlilegt að gera upp á milli verðbréfasjóða með því að skerða suma sjóði minna en aðra.

Íslandsbanki birti í gær lista yfir tuttugu stærstu hluthafa bankans. Tveir sjóðir í rekstri Íslandssjóða; IS EQUUS Hlutabréf og IS Hlutabréfasjóðurinn, voru í þrettánda og fjórtánda sæti listans með 0,4 prósenta hlut hvor. Enginn annar íslenskur verðbréfasjóður var í hópi tuttugu stærstu hluthafanna.

Samanlagður eignarhlutur upp á 0,8 prósent þýðir að sjóðirnir tveir fengu úthlutun upp á tæplega 1.300 milljónir króna. Það er mun meiri úthlutun en til helstu keppinauta Íslandssjóða í sjóðastýringu. Athugun Fréttablaðsins leiddi í ljós að önnur stór, innlend sjóðastýringarfélög fengu hver úthlutun á bilinu 250 til 500 milljónir.

Viðmælendur Fréttablaðsins leiða líkur að því að tilboð sjóða á vegum Íslandssjóða hafi verið skert mun minna en tilboð annarra sjóða.

Einn viðmælandi sagði að tilboð sjóðastýringarfélagsins sem hann starfaði hjá hefði verið skert niður í 15 prósent.

Ef 15 prósenta skerðing er heimfærð yfir á eignarhlut sjóða Íslandssjóða hefðu sjóðirnir tveir þurft að leggja fram tilboð upp á samtals 8,7 milljarða króna til þess að fá 1.300 milljóna króna úthlutun. Samanlögð stærð sjóðanna tveggja er um 15 milljarðar króna.

Fréttablaðið hefur fengið staðfest að sjóðir á vegum Íslandssjóða hafi ekki lagt fram tilboð af þeirri stærðargráðu enda brýtur það í bága við lög sem kveða á um að stök verðbréfaeign megi ekki nema meira en 35 prósentum af eignasafni verðbréfasjóðs. Tilboðin virðast því hafa verið skert mun minna en tilboð annarra sjóðastýringarfélaga.

„Þetta lítur óeðlilega út, sama hvernig maður snýr þessu,“ sagði einn af viðmælendum Fréttablaðsins en þeir voru á einu máli. Óeðlilegt væri að gera upp á milli verðbréfasjóða, sérstaklega þegar um tengda aðila væri að ræða og sölu á ríkiseign.

„Það er augljóslega verið að hygla ákveðnum sjóðum. Við uppfylltum öll skilyrðin: komum snemma inn og sýndum áhuga, en fengum samt bara litla úthlutun,“ sagði annar. „Það er ekki falleg áferð á þessu.

Fréttablaðið bar málið undir Bankasýslu ríkisins, sem vísaði til útboðslýsingarinnar fyrir útboð Íslandsbanka. Þar kemur meðal annars fram að úthlutuninni sé háttað með kerfisbundnum hætti en seljandinn áskilji sér þó fullan rétt til að haga úthlutuninni að vild.

Af 20 stærstu hluthöfum Íslandsbanka voru níu erlend félög, en fyrir lá að Capital World og RWC Asset Management yrðu meðal svokallaðra hornsteinsfjárfesta bankans. Capital World heldur á 3,8 prósenta hlut og RWC 1,5 prósentum. Þriðji stærsti erlendi sjóðurinn er Mainfirst affiliated fund managers með 0,8 prósent, svo Silverpoint og Eaton Vance með 0,6 prósent hvor.

Aðrir erlendir sjóðir meðal stærstu hluthafa eru Frankling Templeton Investment Management, Premier Fund Managers, Fiera Management og Schroder Investment Management.

Lífeyrissjóðirnir Gildi og Live höfðu samþykkt að vera hornsteinsfjárfestar í útboðinu og eru því stærstir meðal íslenskra lífeyrissjóða með 2,3 prósenta hlut hvor. Almenni lífeyrissjóðurinn (0,8 prósent), Brú (0,5 prósent) og Stapi (0,4 prósent) fylgja þar á eftir meðal íslenskra lífeyrissjóða.

Ríkissjóður er eftir útboðið enn þá stærsti hluthafi bankans með 65 prósenta hlut. Frá því að bréf bankans voru tekin til viðskipta í fyrradag hefur gengi þeirra hækkað um 25 prósent frá útboðsgenginu, úr 79 krónum í 99 krónur fyrir hlutinn. Á fyrsta degi viðskipta nam velta með bréf bankans meira en 5 milljörðum króna og í gær nam hún 1,7 milljörðum.

Í hlutafjárútboði Íslandsbanka var níföld umframeftirspurn eftir bréfum bankans og því ljóst að skerða þurfti tilboð fjárfesta töluvert. Tilboð undir einni milljón króna voru hins vegar ekki skert. Öll eignarhaldsfélög og fjársterkir einstaklingar, sem skráðu sig fyrir meira en 75 milljónum króna í hlutafjárútboði Íslandsbanka, fengu einungis úthlutun upp á eina milljón króna.

Heildareftirspurn í hlutafjárútboði Íslandsbanka var samtals 486 milljarðar króna en að því gefnu að valréttir til að mæta umframeftirspurn verði nýttir að fullu mun ríkið fá 55,3 milljarða króna í sinn hlut fyrir 35 prósenta hlut í bankanum.