Síaukin eftirspurn er eftir vegan vörum hérlendis en skortur hefur verið á ákveðnum vörum frá því fyrir jól.
Facebook hópurinn Vegan Ísland er mjög virkur en þar hafa fjölmargir leitað að vegan sýrðum rjóma frá sænska vörumerkinu Oatly sem hefur ekki verið fáanlegur á landinu frá því fyrir jól. Margir kveðast ætla að birgja sig upp af vörunni fyrir næstu jól.
Anna María Árnadóttir, markaðsstjóri, hjá Innnes sem flytur inn Oatly-vörurnar segir að skortur hafi verið undanfarið á sýrðum rjóma frá Oatly vegna framleiðsluannmarka hjá fyrirtækinu. Ekki er ljóst hvenær varan verður fáanleg aftur á landinu.
„Síðla ársins 2018 og nær allt árið 2019 annaði Oatly ekki eftirspurn og dreifing varanna var því takmörkuð sem hafði mikil áhrif á íslenska markaðinn. Oatly vann í því að auka framboð á vörunum árið 2019 og náði auka framleiðslugetuna. Eins og staðan er í dag þá á Innnes til á lager allar Oatly-vörur nema sýrða rjómann vegna framleiðsluannmarkanna á þeirri vöru," segir Anna María.
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, sagði í samtali við Fréttablaðið í lok árs 2018 að ekkert nýtt vörumerki hafi fengið jafn mikla sölu og Oatly hjá fyrirtækinu.
Sala aukist á vegan vörum
Anna María segir að söluaukning hafi verið á vegan vörum síðastliðið ár, bæði vegna aukins framboðs á Oatly vörum og einnig vegna aukinnar áherslu á vegan vörur. „Það verður einnig að hafa í huga að samanburður er á tímum heimsfaraldurs og söluaukning verið almennt á matvöru," bætir Anna María við.
Ótímabært er að segja til um hvort að sala á vegan vörum hafi aukist á milli ára í janúar en fjölmargir taka nú þátt í átakinu Veganúar, það komi ekki í ljós fyrr en í lok mánaðarins. Anna María segir jafnframt að framboð og sala á Oatly vörunum hafi aukist aftur í janúar á síðasta ári eftir langvarandi skort á vörunum á íslenska markaðinum.
Innnes hefur almennt aukið birgðir á öllum vörum til að auka matvælaöryggi landsins á tímum kórónuveirufaraldursins.