„Útivinna við grunninn hefur ekkert raskast. Henni á að ljúka í lok apríl eða byrjun maí. Mannskapurinn hjá verktakanum er nægjanlegur. Þetta er á tíma og er í lokafasa,“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., sem heldur utan um Hringbrautarverkefnið.

Starfsemi verkefnaskrifstofunnar að baki uppbyggingu nýs Landspítalans hefur raskast aðeins vegna COVID-19 en ekki svo að áætlanir standist ekki. Fólkið er komið að mestu heim og vinnur rafrænt þaðan.

Næsta skref er að klára grunninn og hefja smíði á um 70 þúsund fermetra meðferðarkjarna og í kjölfarið hliðsettum bílakjallara.

„Það er búið að ljúka forvali á uppsteypu á meðferðarkjarnanum, það er von okkar að innan nokkurra daga fái verktakafyrirtækin fimm, sem sendu inn þátttökubeiðni, öll útboðsgögnin í kjölfar heimildar. Þá er gert ráð fyrir því að uppsteypa hefjist, miðað við stöðuna í dag, í júní,“ segir Gunnar. „Þegar ÍAV sem er að vinna núna á staðnum fer í burtu þá kemur eitt af þessum fimm verktakafyrirtækjum og tekur við beint í kjölfarið.“

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf.

Ýmis önnur útboð eru í farvatninu, bæði tengd meðferðarkjarnanum og öðrum verkefnum á svæðinu. „Þetta útboð um uppsteypuna, sem hljóðar upp á nokkuð marga milljarða, er stóra málið, en Alþingi veitti því brautargengi á fjárlögum ársins. Uppsteypan mun taka um tvö og hálft ár. Þetta er mjög umfangsmikið en verktakinn mun ráða við það. Í tilboðsfasanum munu fyrirtækin reikna út verð á steypu, járnum, stjórnun o.þ.h. svo er þetta hrein samkeppni þeirra á milli um verðið því hæfis- og hæfnisvalinu er lokið í forvali,“ segir Gunnar.

Verktakarnir fimm sem um ræðir eru Eykt, Íslenskir aðalverktakar, Ístak, Rizzani De Eccher og ÞG verktakar.

Veðrið í vetur hefur lítillega sett strik í reikninginn við vinnuna utandyra á verkstað, meira en COVID-19 faraldurinn, og hafa nokkur verk þurft að bíða vors, sem sagt frágangur grassvæða. „Gatnamótin við Snorrabraut voru opnuð seinna en áætlað var, en það kom ekki að sök.“

Í janúar auglýsti Hringbrautarverkefnið eftir verkefnastjórum til að styrkja innviði félagsins, mjög mörg störf verða þó útvistuð. Talsverður fjöldi umsókna barst og var sú vinna komin langt á leið þegar hún var sett á bið vegna COVID-19 faraldursins.

„Þetta mun ekki setja strik í reikninginn. Við erum í dag með verkefnastjóra í vinnu sem geta sinnt núverandi verkefnum, nýtt fólk og nýir útvistaðir aðilar verða komnir þegar uppsteypuverkið fer á fulla ferð í sumar. Áætlanir taka mið af agaðri uppbyggingu. Aðalmálið er að allir standi saman um að koma verkinu í loftið.“