Líklegt má telja að íslensk útgerðarfyrirtæki muni horfa í auknum mæli út fyrir landsteinana ef ætlunin er að vaxa og auka umsvif, að sögn Snorra Jakobssonar, hlutabréfagreinanda. Í nýjasta verðmati Jakobsson Capital á útgerðarfélaginu Brimi kemur fram að verð aflaheimilda á Íslandi sé nokkuð hærra en ávöxtun núvirts sjóðstreymis þeirra.

„Sé tekið tillit til afskrifta, viðhaldskostnaðar, fjármagnsliða og annarra útgjalda sem fylgir rekstri útgerða þá standa tekjur af fiskveiðum tæplega undir leiguverði aflaheimilda eins og verðin eru núna,“ segir Snorri. Verð aflaheimilda á Íslandi sé í raun jaðarverð sem snúi að því að ná fram hámarksnýtingu rekstrarfjármuna. „Verð á aflaheimildum er í raun 30 til 40 prósent lægra en sést á markaði með aflamark ef tekið er tillit til nauðsynlegrar fjárbindingar í veiðum og vinnslu, það sést einfaldlega með að skoða sjóðstreymið út úr rekstri íslenskra útgerðarfyrirtækja. Þetta er eitthvað sem hafa mætti í huga þegar uppstokkun á aflamarkskerfinu er til umræðu,“ segir Snorri jafnframt.

Hann nefnir einnig að rekstur Brims hafi verið einstaklega góður á árinu 2019. Samkvæmt verðum á aflamarki nú sé verðmæti aflaheimilda Brims um 73 til 79 milljarðar króna. „Á móti kemur að skuldir eru hærri en eignir ef aflaheimildir eru undanskildar sem nemur 25 milljónum evra eða rúmlega 4 milljörðum króna. Mjög gróft mat á virði miðað við verðmæti aflaheimilda er því um 72 milljarðar króna. Verðmat samkvæmt sjóðstreymi er 75,3 milljarðar. Það er því óverulegur munur á verðmati samkvæmt sjóðstreymi og grófu verðmati miðað við verðmat aflaheimilda. Sömuleiðis er markaðsvirði ekki fjarri,“ segir í greiningunni um Brim.

Óvíða hefur átt sér stað jafnmikil hagræðing í sjávarútvegi og á Íslandi og því liggja tækifæri íslenskra útgerða til vaxtar ekki síst utan landsteinanna.

Brim keypti 16,5 prósenta hlut í grænlenska sjávarútvegsfyrirtækinu Arctic Prime Fisheries fyrir 13,5 milljarða króna í júlí síðastliðnum. Aflaheimildir grænlenska félagsins eru um 10 þúsund tonn af botnfiski og 18 þúsund tonn af uppsjávarfiski. Til samanburðar er úthlutað aflamark Brims á yfirstandandi fiskveiðiári um 45 þúsund tonn.

Því er einsýnt að töluvert meira magn mun fara um söluskrifstofur Brims eftir því sem samstarf félagsins við Arctic Prime Fisheries eykst. „Það kemur ekki á óvart að menn séu að líta í kringum sig og horfa til fjárfestinga í erlendum útgerðum þar sem verð aflaheimilda endurspeglar betur vænt sjóðstreymi. Óvíða hefur átt sér stað jafnmikil hagræðing í sjávarútvegi og á Íslandi og því liggja tækifæri íslenskra útgerða til vaxtar ekki síst utan landsteinanna,“ segir Snorri.