Fyrir­tækið 1939 Games hefur verið valið Vaxtar­sproti ársins sem er viður­kenning fyrir öfluga upp­byggingu sprota­fyrir­tækis. Utan­ríkis­ráð­herra, Guð­laugur Þór Þórðar­son, af­henti Vaxtar­sprotann í morgun í Kaffi Flóru í Grasa­garðinum í Laugar­dal. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Sam­tökum Iðnaðarins.

1939 Games er tölvu­leikja­fyrir­tæki sem gefur út leikinn KARDS en sögu­svið leiksins er síðari heims­styrj­öldin. Velta fyrir­tækisins jókst um 1.466% á milli áranna 2019 og 2020 þegar veltan fóru úr rúmum 15 milljónum króna í 244 milljónir króna. Um er að ræða met­vöxt í veltu frá því Vaxtar­sprotinn var fyrst af­hentur árið 2007.

Frá afhendingu viðurkenninganna. Í neðri röð frá vinstri eru Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Guðmundur Kristjánsson, einn af stofnendum 1939 Games, Hekla Arnardóttir, stjórnarformaður 1939 Games.
Ljósmynd/Birgir Ísleifur

Coripharma og Algalíf hlutu á mikilli uppleið

Tvö önnur fyrir­tæki, Corip­harma og Al­ga­líf, hlutu einnig viður­kenningar. Corip­harma sér­hæfir sig í fram­leiðslu og þróun lyfja fyrir önnur lyfja­fyrir­tæki um heim allan, á­samt því að þróa sín eigin lyf. Velta Corip­harma jókst um 392% á milli áranna 2019 og 2020, fór úr 180 milljónum króna í 888 milljónir króna eða nær fimm­faldaðist.

Al­ga­líf hlaut sér­staka viður­kenningu fyrir að velta í fyrsta sinn einum milljarði króna. Al­ga­líf fram­leiðir ör­þörunga í há­tækni vatns­kerfum og vinnur úr þeim as­taxanthín sem nýtt er í fæðu­bótar­efni og snyrti­vörur um allan heim. Fyrir­tækið jók veltu úr 625 milljónum króna í rúman 1,2 milljarð króna á einu ári.

Vaxtar­sprotinn er sam­starfs­verk­efni Sam­taka iðnaðarins, Sam­taka sprota­fyrir­tækja, Há­skólans í Reykja­vík og Rann­sóknar­mið­stöðvar Ís­lands. Þetta er í 15. skiptið sem viður­kenningarnar eru veittar en til­gangur verk­efnisins er að vekja at­hygli á góðum árangri sprota­fyrir­tækja í örum vexti og skapa þannig aukinn á­huga og skilning á upp­byggingar­starfi þessara fyrir­tækja.

Í dóm­nefnd voru Gísli Hjálm­týs­son fyrir Há­skólann í Reykja­vík, Lýður Skúli Er­lends­son fyrir Rann­ís, Fida Abu Libdeh fyrir Sam­tök sprota­fyrir­tækja og Sig­ríður Mogen­sen fyrir Sam­tök iðnaðarins.