María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags, segir að fjármögnun með fljótandi vöxtum hafi reynst Ölmu vel á þessu ári, en vaxtalækkanir Seðlabankans hafi þannig skilað sér beint inn í fjárhag félagsins á árinu sem leið. Jafnframt hafi tekist að fá inn langtímaleigjendur í íbúðir sem áður voru ætlaðar undir skammtímaleigu til ferðamanna.

Hvað gekk vel á árinu 2020?

Í heildina litið gekk rekstur Ölmu íbúðafélags vel á árinu, við búum svo vel að starfa á markaði þar sem eftirspurn er tiltölulega stöðug og þolir vel skammtímasveiflur. Þá er fjárhagur félagsins sterkur, efnahagsreikningur heilbrigður og lausafjárstaða sterk, sem er lykilatriði þegar tekist er á við krefjandi ytri aðstæður. Félagið hefur því blessunarlega hvorki þurft að nýta sér nein úrræði stjórnvalda né heldur að fresta greiðslum af skuldum.

Við tókum vaxtalækkunum ársins fagnandi, enda er fjármagnskostnaður stærsti gjaldaliðurinn í rekstrarreikningi félagsins. Félagið hefur fjármagnað sig töluvert á fljótandi vöxtum sem hafa fylgt þessum lækkunum að miklu leyti. Þá hafa vaxtalækkanir einnig skilað sér í myndarlegum raunhækkunum fasteignaverðs á afar líflegum fasteignamarkaði.

Síðast en ekki síst erum við afar þakklát fyrir okkar góðu viðskiptavini, en án þeirra værum við ekkert. Við höfum fundið fyrir vaxandi áhuga á þjónustu félagsins og sífellt fleiri telja leiguformið ákjósanlegan valkost á húsnæðismarkaði. Með innkomu faglegra íbúðafélaga stendur neytendum nú til boða það húsnæðisöryggi sem fylgir því að eiga fasteign á sama tíma og þeir njóta þess sveigjanleika sem fylgir því að leigja og þurfa ekki að bera áhættu af mikilli skuldsetningu eða óvæntum viðhaldskostnaði.

Hvað var krefjandi á árinu sem er að líða?

Árið 2020 bauð upp á ýmsar ófyrirsjáanlegar áskoranir. Til dæmis þurftum við að loka hluta af starfsemi okkar, skammtímaleigu til ferðamanna, með skömmum fyrirvara þegar eftirspurnin hrundi nánast á einni nóttu. Með því að breyta eignunum í hefðbundnar langtímaleiguíbúðir gátum við lágmarkað tjónið sem þessu fylgdi og voru allar eignirnar orðnar tekjuberandi innan nokkurra vikna.

Alma íbúðafélag er í söluferli sem nú stendur yfir. Ef ferlinu lýkur án sölu er stefnt að því að skrá félagið á First North markaðinn.

Einnig höfum við, eins og aðrir, tekist á við nýjan veruleika í kjölfar sóttvarnaaðgerða og þeirri aðlögun hafa fylgt ýmsar áskoranir. Við höfum frá stofnun lagt mikið upp úr rafrænni þjónustu og vorum því nokkuð vel undirbúin, en þetta ýtti við okkur að ganga ennþá lengra og erum við orðin vel sjóuð í fjarvinnu og fjarþjónustu í dag.

Hvernig horfir árið 2021 við þér í rekstrinum?

Ég lít björtum augum til komandi árs. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er Alma íbúðafélag í söluferli sem nú stendur yfir. Ef ferlinu lýkur án sölu er stefnt að því að skrá félagið á First North markaðinn. Hvernig sem fer liggur fyrir að það verða breytingar á eignarhaldinu og í slíkum aðstæðum felast oft spennandi tækifæri.

Þá er það trú mín að þegar faraldurinn líður undir lok vöknum við upp við breytta heimsmynd. Við höfum lengi verið á braut mikilla samfélagslegra breytinga en faraldurinn hefur virkað eins og hraðall á þær. Þá ríður á að vera viðbúinn að mæta áherslum sífellt kröfuharðari hagaðila; fjárfesta, viðskiptavina og samfélagsins. Þau fyrirtæki sem neita að horfast í augu við þetta munu ekki lifa af.