Neytendastofa hefur ákvarðað að vaxtahækkun Arion banka á fasteignaláni einstaklings hafi brotið gegn neytendaverndarlögum. Vaxtaendurskoðunarákvæði hafi verið ólögmætt þar sem lántaka var ekki tilgreint við hvaða aðstæður vextirnir gætu breyst.

Um er að ræða verðtryggð fasteignalán sem voru upphaflega veitt af Frjálsa fjárfestingarbankanum en í kjölfar bankahrunsins enduðu þau í eigu Arion banka. Lánin voru með föstum 4,15 prósenta vöxtum, en jafnframt með eftirfarandi stöðluðum skilmála um vaxtaendurskoðun. Þegar um áratugur var liðinn af lánstímanum ákvað Arion banki að endurskoða vextina og hækka þá í 4,35 prósent.

Niðurstaða Neytendastofu beinist einnig að Frjálsa fjárfestingarbankianum sem talinn er hafa brotið gegn lögum um neytendalán með því að tilgreina ekki í umræddum skilmálum við hvaða aðstæður vextir geti breyst. Arion banki hafi svo brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sem banna óréttmæta viðskiptahætti, með því að hækka vexti á grundvelli hins ólögmæta skilmála um vaxtaendurskoðun.

Hagsmunasamtök heimilanna sendi kvörtun vegna málsins fyrir hönd félagsmanns sem ofgreiddi vexti af tveimur húsnæðislánum í rúm fjögur ár, frá því að Arion banki hækkaði þá í apríl 2015.

Bent er á að Hæstiréttur Íslands staðfesti árið 2017 að sambærilegir skilmálar hjá Íslandsbanka væru ólöglegir þar sem ekki kom fram við hvaða aðstæður eða af hvaða tilefni vextirnir gætu breyst, eins og áskilið er í lögum um neytendalán.