Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í maí 2022, er 539,5 stig og hækkar um 0,77 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 450,2 stig og hækkar um 0,42 prósent frá apríl 2022. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,9 prósent (áhrif á vísitöluna 0,14 prósent), kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 2,3% (0,43%), verð á nýjum bílum hækkaði um 2,1 prósent (0,11 prósent) og verð á bensíni og olíum hækkaði um 2,9 prósent (0,10 prósent). Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 6,9 prósent (-0,14 prósent).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,6 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 5,5 prósent.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í maí 2022, sem er 539,5 stig, gildir til verðtryggingar í júlí 2022. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 10.652 stig fyrir júlí 2022.

Skarpar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans undanfarna 12 mánuði virðast því lítil áhrif hafa á verðbólguna. Þarf það ekki koma á óvart þar sem verðbólgan er að stærstum hluta annars vegar innflutt og hins vegar vegna skorts á húsnæði, enda hefur íslensk peningastefna ekki áhrif á verðbólgu erlendis og hærri vextir stuðla fremur að húsnæðisskorti en að leysa þann vanda.