Vatnshæð Þórisvatns er nú 567,8 metra yfir sjávarmáli, en það er nálægt lægsta gildi sem mælst hefur á þessum tíma árs. Samkvæmt gögnum Landsvirkjunar um vatnshæð Þórisvatns, sem eru uppfærð daglega, er lægsta vatnshæð Þórisvatns sem mælst hefur 21.júní 567,37 metrar yfir sjávarmáli.

Þórisvatn er stærsta stöðuvatn landsins, en það gegnir einnig hlutverki miðlunarlóns fyrir aflstöðvar Landsvirkjunar í Tungnaá og Þjórsá.

Vatnsyfirborð Þórisvatns hækkar vanalega í júní, en hefur heldur farið lækkandi síðustu daga. Þurrt og kalt vor hefur hægt mjög á innrennsli í miðlunarlón Landsvirkjunar á vormánuðum og snemmsumars. Til að jökulbráð komist almennilega stað þarf bæði ákveðið hátt hitastig, en ekki síður rigningu.

Á síðasta ári var yfirborð Þórisvatns 575,65 metrar yfir sjávarmáli. Áætluð meðalvatnshæð Þórisvatns yfir sjávarmáli til lengri tíma er tæplega 575 metrar, en háa vatnsstöðu á síðasta ári má að einhverju leyti rekja til minni orkueftirspurnar stærri viðskiptavina, svo sem álvera.

Vatnsyfirborð Þórisvatns hefur lækkað á síðustu dögum, þvert á það sem venjan er á þessum árstíma. Fjólubláa línan sýnir núverandi ár, ljósbláa síðasta ár og sú gula áætlað meðaltal.
Landsvirkjun

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs Landsvirkjunar, sagði í samtali við Markaðinn þann 10.júní síðastliðinn að ekki væri ástæða til að óttast skerðingar á raforku þrátt fyrir lága vatnsstöðu Þórisvatns.

„Þarna erum við háð duttlungum náttúrunnar. Auðvitað fylgjumst við með stöðunni en það eru engin hættumerki sem kalla á að við séum að grípa til ráðstafana, svo sem að spara vatn í lónum eða seinka viðhaldi,“ sagði Tinna.

Staða miðlunarforða Landsvirkjunar er undir meðallagi eftir kaldan og þurran vetur. Innrennsli í miðlunarlón Landsvirkjunar hefur verið mjög slakt í vetur. Á Þjórsársvæði og á Austurlandi hefur veturinn verið kaldur og mjög þurr og innrennsli með minnsta móti.

Á sama tíma er eftirspurn eftir raforku sterk, einkum vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs á þeim hrávörum sem stærstu viðskiptavinir Landsvirkjunar framleiða.

Stór hluti rafmagnsframleiðslu landsins á sér stað á Tungnaár- og Þjórsársvæðinu. Má þar nefna Búrfellsstöð (uppsett afl 270 megavött), Sigöldustöðu (uppsett afl 150 megavött), Hrauneyjafoss (210 megavött), Sultartangastöð (120 megavött), Vatnsfellsstöð (90 megavött), Búðarhálsstöð (95 megavött).

Yfirlitsmynd af vatnakerfi Tungnaár og Þjórsár. Aðeins Vatnsfellsstöð er að fullu háð Þórisvatni, en Tungnaá, Þjórsá og Kaldakvísl leggja af mörkum til miðlunarlóna neðar. Allt kerfið er þó háð úrkomu og jökulbráð sem hafa látið á sér standa.
Landsvirkjun