Tap Icelandic Water Holdings jókst um 61 prósent á milli ára og nam 25,6 milljónum dollara árið 2018. Það jafngildir um 3,2 milljörðum króna. Jón Ólafsson er stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Water Holdings en félagið tappar vatni á flöskur undir merkjum Icelandic Glacial í verksmiðju í Ölfusi.

Tekjur félagsins jukust um 17 prósent á milli ára og námu um 20 milljónum dollara, jafnvirði um 2,5 milljarða króna. Um 93 prósent teknanna má rekja til útflutnings. Tekjur vegna sölu á Íslandi jukust um þriðjung og námu um 1,3 milljónum dollara, jafnvirði um 160 milljóna króna. Á sama tíma rúmlega tvöfölduðust vaxtagjöld félagsins á milli ára og námu þau samtals 18 milljónum dollara í fyrra.

Fram kemur í ársreikningi Ice­landic Water Holdings fyrir árið 2018 að hlutur Jóns hafi minnkað um 18 prósent á milli ára. Árið 2017 átti hann og tengd félög 23 prósenta hlut í fyrirtækinu en í fyrra var hlutur hans fimm prósent. Þau bréf voru veðsett bandaríska fjárfestingarbankanum JP Morgan.

„Það er bara verið að gera það sem þarf til að hafa hlutina í lagi.“

Í samtali við Markaðinn segir Jón hins vegar að hlutur hans í fyrirtækinu sé óbreyttur. „Það er bara verið að gera það sem þarf til að hafa hlutina í lagi,“ útskýrir Jón.

Sonur Jóns, Kristján Ólafsson, á 18,5 prósenta hlut í Icelandic Water Holdings. Feðgarnir stofnuðu félagið árið 2004.

Hlutafé aukið um 31 milljón dollara

Við lok árs var eigið fé Icelandic Water Holdings 16,7 milljónir dollara og eiginfjárhlutfallið 13 prósent. Fyrirtækið upplýsti í ágúst að hlutafé hefði verið aukið um 31 milljón dollara. Núverandi hluthafar og aðrir lögðu félaginu til fé. Á sama tíma var upplýst að skuldabréfasjóðir á vegum BlackRock hefðu lánað fyrirtækinu 35 milljónir dollara.