Að því er v irðist linnulaus framleiðsluaukning á áli í Kína á síðastliðnum árum er líklegast komin að endastöð, að minnsta kosti um sinn. Landið verður nettó innf lytjandi áls á þessu ári og því næsta hið minnsta, sem þýðir að sá mikli þrýstingur sem hefur verið á álverði á undanförnum árum mun minnka talsvert.

Þetta er mat Eoin Dinsmore, sérfræðings hjá greiningarfyrirtækinu CRU, sem er leiðandi á heimsvísu í greiningum á mörkuðum með hina ýmsu málma, þar á meðal ál. Dinsmore er meðal frummælenda á ársfundi Samáls, sem streymt verður á vefsíðu samtakanna þriðjudaginn 11. maí næstkomandi.

Um það leyti sem heimsfaraldurinn hafði læst klónum í nánast alla heimsbyggðina í mars á síðasta ári, hrundi álverð niður í lægðir sem ekki höfðu sést um árabil. Síðan þá hefur heimsmarkaðsverðið hækkað um meira en 70 prósent samkvæmt gögnum frá LME-kauphöllinni.

„Verðhækkanirnar hófust af miklum krafti í apríl á síðasta ári. Kína var einna fyrsta ríkið til að keyra sitt hagkerfi aftur í gang eftir að allt stöðvaðist og áleftirspurn þar var strax farin að aukast hratt á fyrri hluta síðasta árs. Þegar myrkasti tími faraldursins var yfirstaðinn á síðasta ári fór öll heimsbyggðin loks að sjá til lands út úr faraldrinum sem studdi frekar við álverðið. Svo má einnig nefna veikari Bandaríkjadal og stórtækar aðgerðar seðlabanka heimsins, sem studdu mjög við verð á mörgum hrávörum. Eftir fjármálakreppuna drógu seðlabankar þann lærdóm að gera frekar meira en minna,“ segir Dinsmore

Taka mengun fastari tökum

Hann bætir því við að undir lok síðasta árs hafi æ meiri athygli beinst að mikilli losun Kína á gróðurhúsalofttegundum, en stór hluti áliðnaðar þar í landi nýtir raforku sem framleidd er með brennslu kola, sem er ein mest mengandi aðferð til raforkuframleiðslu sem til er.

Dinsmore bendir á að stefnumótun kínverskra stjórnvalda gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda hafi breyst hratt að undanförnu. Ákveðnum álframleiðendum þar í landi hafi verið skipað að draga úr framleiðslu vegna mengunar sem tengist raforkuframleiðslunni sem þeir nýta. „Í dag er erfiðara að byggja og reka kolaraforkuver í Kína en verið hefur,“ segir hann.

Breyting á vöruskiptamynstri áls í Kína helgast þó ekki eingöngu af breyttum viðmiðum í umhverfismálum. Eftirspurn sé einfaldlega það sterk þar í landi um þessar mundir að framleiðendur sjá hag sinn vænstan í því að selja sína framleiðslu innanlands, enda verð oftar en ekki hærra þar en á öðrum mörkuðum að undanförnu.

ETS ýtir upp orkuverði

Mengunareiningar á ETS-markaði Evrópusambandsins hafa rokið upp í verði að undanförnu, sem þýðir að sífellt dýrara verður að losa kolefni í Evrópu. Á síðasta ári fór verðið í fyrsta sinn yfir 30 evrur á tonnið og fyrr í þessari viku fór verðið svo yfir 50 evrur. Markmið kerfisins var að gera mengun svo dýra að orkuframleiðsla og frumiðnaður í Evrópu neyddist til að skipta yfir í grænni lausnir. Ein afleiðingin hefur hins vegar verið sú að iðnaður hefur færst til landa þar sem umhverfismál eru ekki tekin sömu föstu tökum og í Evrópu, til að mynda til Kína. Er þessi þróun jafnan kölluð kolefnisleki.

„Ef við lítum á kostnaðarkúrfu áliðnaðar í heiminum, þá njóta þeir framleiðendur sem hafa lægsta raforkuverðið mestrar samkeppnishæfni. ETS-kerfið hefur ýtt upp raforkuverði almennt í Evrópu, þrátt fyrir að raforkukerfið sé alltaf að verða grænna. Enda er það dýrasta raforkuframleiðslan sem setur verðið. Í tilfelli Evrópu eru það þá kolaorkuverin, sem þurfa að kaupa ETS-einingar til að halda áfram sinni framleiðslu. Eftir því sem ETS-verðin hækka, fylgir raforkuverðið með. Af þessum sökum hafa mörg ríki gripið til þess að endurgreiða ETS-kostnað til fyrirtækja í frumiðnaði, séu þau að nýta endurnýjanlega orku til sinnar framleiðslu, enda rímar raforkukostnaður þeirra ekki alltaf við raunverulega mengun sem hlýst af framleiðslunni,“ segir Dinsmore.

Þessar endurgreiðslur eru til að mynda framkvæmdar til áliðnaðar í Noregi sem framleiðir nánast eingöngu endurnýjanlega raforku líkt og Ísland.

Kolefnislandamæri rísa

Í næsta mánuði mun framkvæmdastjórn ESB kynna til sögunnar tillögur að nokkurs konar kolefnislandamærum (e. carbon border adjustment mechanism). Í þeim felst að hrávörur sem framleiddar eru utan aðildarríkja sambandsins fyrir atbeina mengandi raforku muni bera háa tolla. „Með þessu er Evrópa að segja: Ef þið ætlið að selja ykkar vörur á þessum markaði þurfið þið að borga það sama fyrir mengunina og fyrirtækin hér gera,“ útskýrir Dinsmore. Talið er líklegt að þetta nýja fyrirkomulag muni taka gildi eftir 18 til 24 mánuði, en fyrsta kastið mun það taka til sements og stáls, en líklega áls líka.

Dinsmore bendir á að alþjóðleg viðskipti með ál séu mjög umfangsmikil og því myndu hin svokölluðu kolefnislandamæri hafa mikið að segja um samkeppnishæfni evrópskra álframleiðenda.