Hagnaður Haru Holding, sem á félög tengd rekstri flugfélagsins Atlanta, dróst saman um 41 prósent á milli ára og nam 24,2 milljónum Bandaríkjadala árið 2020 eða jafnvirði þriggja milljarða króna.
Tekjurnar drógust saman um 21 prósent á milli ára og námu 196 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 24,3 milljarða króna árið 2020. Eins og þekkt er hafa flugsamgöngur meira og minna legið niðri vegna COVID-19 heimsfaraldursins.
Arðsemi eiginfjár var 15 prósent á síðasta ári. Eigið fé var 175 milljónir Bandaríkjadala við lok síðasta árs og eiginfjárhlutfallið var 77 prósent. Þetta kemur fram í ársreikningi.
Hannes Hilmarsson á 50 prósenta hlut í fyrirtækinu og Geir Valur Ágústsson 30 prósent.
Haru Holding á innlendu dótturfélögin: Flugfélagið Atlanta, Atlanta Travel Services, Atlanta Flight Academy, Café Atlanta og Northern Lights Leasing.
Þá það erlendu dótturfélögin: Air Atlanta Aviaservices, Air Atlanta UK og AAE Holding.
Baldvin Már Hermannsson, forstjóri flugfélagsins Atlanta, sagði í ViðskiptaMogganum við upphaf árs að farþegatekjur flugfélagins á síðasta ári hafi verið um 75 prósent lægri en gert hafi verið ráð fyrir en fyrirtækið hefur síðustu tvo áratugi sinnt pílagrímaflugi með bækistöðvar í Sádi-Arabíu.
„Þetta tókst okkur að vinna upp með endurskipulagningu og verulegum aðhaldsaðgerðum. Við náðum að bæta tveimur fraktvélum við flotann og tókst á örskömmum tíma að breyta félaginu í fraktflugfélag. Þá náðum við metnýtingu á þær vélar frá og með september,“ sagði hann.