Hámark verður sett á stöðutöku kerfislega mikilvægra viðskiptabanka og sparisjóða í fjármálagerningum og hrávörum samkvæmt drögum að frumvarpi um varnarlínu á milli viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Frumvarpinu, sem er samið af starfshópi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði í júlí í fyrra, er ætlað að hrinda í framkvæmd einni af megintillögum hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem gefin var út í desember árið 2018.

Í greinargerð sem fylgir frumvarpsdrögunum er rakið að íslenskir bankar séu svonefndir alhliða bankar sem sinni bæði hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi, á borð við viðtöku innlána, veitingu útlána og miðlun greiðslna, og fjárfestingabankastarfsemi, á borð við viðskipti fyrir eigin reikning, milligöngu við útgáfu verðbréfa og eignastýringu.

Síðari ár hafa verið til umræðu bæði hér á landi og erlendis að reisa skorður við heimild viðskiptabanka til þess að nýta innstæður til að fjármagna fjárfestingabankastarfsemi, að því er fram kemur í greinargerðinni, og hafi ýmis ríki gripið til ráðstafana sem miða að því.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum mega beinar og óbeinar stöður kerfislega mikilvægs viðskiptabanka eða sparisjóðs í fjármálagerningum, að frátöldum skuldabréfum utan veltubókar, og hrávörum ekki vera svo miklar að samanlögð eiginfjárþörf hans vegna þeirra, samkvæmt viðmiðum sem Fjármálaeftirlitið birtir, sé umfram fimmtán prósent af eiginfjárgrunni hans.

Jafnframt er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verið heimilað að takmarka viðtöku viðskiptabanka og sparisjóða á innlánum, óháð því hvort þeir teljist kerfislega mikilvægir, ef stöðutaka þeirra í fjármálagerningum og hrávörum fer umfram þrjátíu prósent af eiginfjárgrunni þeirra og getur ógnað hagsmunum innlánseigenda.

Frestur til þess að veita umsögn um málið er til 7. mars næstkomandi. Fjármála- og efnahagsráðherra áformar að leggja fram frumvarp á Alþingi um varnarlínuna síðar í mars.