Þeir efnahagsörðugleikar sem leiða af heimsfaraldri kórónaveirunnar fela í sér sterk rök til þess að styrkja samkeppnislög í stað þess að veikja þau, að mati Samkeppniseftirlitsins sem leggst harðlega gegn því að frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, til breytinga á samkeppnislögum verði að lögum í óbreyttu horfi.

Í nýrri umsögn eftirlitsins við frumvarpið er tekið fram að breyttar efnahagsaðstæður af völdum veirunnar kalli enn frekar á umræðu um styrkingu samkeppnislaga og endurmat á markmiðum frumvarpsins.

„Rannsóknir sýna að aðgerðir til þess að efla samkeppni stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins. Ráðstafanir sem takmarka samkeppni framlengja hins vega rog auka efnahagsörðugleika og vinna þar með gegn bata,“ segir í umsögninni.

Samkeppniseftirlitið ítrekar að sterk samkeppnislög skipti ekki hvað síst sköpum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem séu oft viðkæm fyrir skakkaföllum.

Íslenskt efnahagslíf eigi mikið undir því að slíkum fyrirtækjum sé skapaður áframhaldandi starfsgrundvöllur og þá ekki síst við ríkjandi aðstæður.

„Það verður meðal annars gert með því að tryggja að samkeppnislög veiti þeim vernd,“ segir í umsögn eftirlitsins.