Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarmaður í Icelandair Group og fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar Google Assistant, segir ótímabært að skipta út stjórnarmönnum. Samsetning núverandi stjórnar eigi vel við þær krefjandi aðstæður sem flugfélagið er í og mikilvægt sé að stjórnin fái ráðrúm til að horfa langt fram í tímann.

„Ég trúi því að Icelandair muni koma vel undan vetri en þó sérstaklega ef það er sterk stjórn sem leiðir félagið áfram og fær þann tíma sem hún þarf til að gera það,“ segir Guðmundur.

Á aðalfundi Icelandair Group, sem verður haldinn 12. mars, verður kosið til stjórnar. Tilnefningarnefnd félagsins hefur nú þegar birt ýtarlega skýrslu þar sem lagt er til að stjórnin, sem er skipuð Úlfari Steindórssyni, Guðmundi Hafsteinssyni, Svöfu Grönfeldt, Ninu Jonsson og John F. Thomas, haldist óbreytt.

Eftir samráð við hluthafa, stjórn og helstu stjórnendur Icelandair Group setti nefndin fram viðmið um þá eiginleika sem voru taldir eftirsóknarverðir við val á einstökum stjórnarmönnum og skipan stjórnar í heild. Helstu viðmiðin voru reynsla af alþjóðlegum flugrekstri, leiðakerfum, flugflotastjórnun, söluleiðum, innleiðingu stefnu og stafrænni þróun.

Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi forstjóri Bláfugls, er á meðal frambjóðenda til stjórnar. Steinn Logi, sem starfaði í um 20 ár hjá Icelandair Group, sagði í viðtali við ViðskiptaMoggann í síðustu viku að hann teldi sig mæta skilyrðunum sem tilnefningarnefndin tiltók betur en frambjóðendurnir sem nefndin tilnefndi.

Þá benti hann á að stjórnin hefði verið valin þegar hluthafar voru þrjú þúsund en ekki 14 þúsund. „Því er furðulegt að sjá ekki tilefni til neinna breytinga á stjórninni,“ bætti hann við.

Annar frambjóðandi til stjórnar Icelandair Group er Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, sem er í eigu Pálma Haraldssonar. Pálmi er einn stærsti einkafjárfestirinn í íslenska flugfélaginu með að minnsta kosti 2 prósent í gegnum félagið Sólvelli en einnig á hann hlut í gegnum Ferðaskrifstofu Íslands. Ljóst er að Pálmi vill sjá breytingar á stjórn Iceland­air á aðalfundinum.

„Fjölgun hluthafa, sem er jákvæð í alla staði, þýðir ekki að samsetning og hæfni stjórnar eigi síður við, við þær krefjandi aðstæður sem félagið er í.“

Aðrir stórir einkafjárfestar í Icelandair Group, hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, sem eiga um 2,3 prósenta hlut í gegnum félagið Bóksal, styðja hins vegar óbreytta stjórn undir áframhaldandi formennsku Úlfars Steindórssonar.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa Steinn Logi og Þórunn leitað til hluthafa Iceland­air til þess að afla stuðnings fyrir margfeldiskosningu. Til að knýja fram margfeldiskosningu, sem myndi auka líkur á kjöri þeirra töluvert, þurfa Steinn Logi og Þórunn stuðning hluthafa sem samanlagt ráða yfir minnst 10 prósenta hlut.

Guðmundur, sem hefur setið í stjórn Icelandair Group í þrjú ár, bendir á að núverandi stjórn sé að hluta til skipuð af fólki með víðtæka alþjóðlega reynslu af flugrekstri. Hann nefnir sérstaklega John F. Thomas og Ninu Jonsson en þau komu ný inn í stjórnina á síðasta ári.

„Þau hafa reynst félaginu ómetanlega og eru rétt að byrja. Það er sjaldgæft að íslenskt fyrirtæki hafi aðgang að jafn víðtækri og alþjóðlegri reynslu eins og er í núverandi stjórn,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarmaður í Icelandair.
Fréttablaðið/Ernir

Einnig segir hann mikilvægt að stjórnarmenn hafi ólíkan bakgrunn og mismunandi sérfræðikunnáttu þannig að stjórnin sé fær um að takast á við krefjandi aðstæður. Þá nefnir Guðmundur að núverandi stjórn í þessari mynd hafi einungis starfað saman í eitt ár.

„Stjórnin kom fyrst saman um það leyti sem COVID var að byrja og hefur náð að leiða félagið farsællega í gegnum fordæmalausa tíma. Í þessu samhengi má nefna að flest sambærileg flugfélög í Evrópu hafa fengið mun meiri aðstoð frá stjórnvöldum en Icelandair,“ segir Guðmundur.

„Það er alls ekki best fyrir félagið að skipta út fólki á þessum tímapunkti..“

Viðskiptablaðið hafði nýlega eftir John Thomas að honum þætti „örlítið sérstakt“ að vera aðeins kjörinn til eins árs í senn. Hann benti á að í flestum stjórnum erlendis væri skipunin til að lágmarki fimm ára í senn enda væri hlutverk stjórnarmanna að horfa á stóru myndina og móta framtíðarsýn.

Guðmundur tekur í sama streng. „Mörg krefjandi verkefni eru fram undan sem er búið er að undirbúa vel og mikilvægt að haldið sé vel utan um á næstu mánuðum og árum. Það er alls ekki best fyrir félagið að skipta út fólki á þessum tímapunkti. Stjórnin þarf ráðrúm til þess að horfa langt fram í tímann.“

Hluthafahópur Icelandair tók miklum breytingum eftir hlutafjárútboð félagsins í september. Á sama tíma og hluthöfum fjölgaði úr þremur þúsundum í 14 þúsund minnkaði samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóða úr 53 prósentum niður í liðlega 25 prósent.

Spurður hvort svo mikil breyting á hluthafahópnum sé tilefni til þess að gera breytingar á stjórninni segir Guðmundur svo ekki vera. „Það er ekki samasemmerki þarna á milli. Fjölgun hluthafa, sem er jákvæð í alla staði, þýðir ekki að samsetning og hæfni stjórnar eigi síður við, við þær krefjandi aðstæður sem félagið er í,“ segir Guðmundur.