Ráðið komst að þessari niðurstöðu á fundi sínum 22. þessa mánaðar. Þar segir að kerfisáhætta hafi aukist og fari enn vaxandi í Evrópu og hvetur ráðið til þess að viðbúnaður í fjármálakerfinu verði tryggður eða aukinn þannig að það geti áfram stutt við heimili og fyrirtæki ef áhættan raungerist. Fjármálafyrirtæki eru hvött til þess að treysta viðnámsþrótt sinn með því að viðhalda nægu eigin fé.

Tilefni viðvörunarinnar eru þær afleiðingar sem stríðið í Úkraínu, nýleg veirufarsótt og tengdir þættir hafa haft á efnahagshorfur í álfunni. Þrálát verðbólga og þrengra aðgengi að fjármálamörkuðum gætu ef allt fer á versta veg haft þau áhrif á fjármálakerfið að stöðugleika verði ógnað.

Ráðið lýsir sérstökum áhyggjum af stöðu heimila og fyrirtækja í öðrum greinum en fjármálaþjónustu, sérstaklega í greinum og löndum sem verða mest fyrir barðinu á hækkandi orkuverði. Hætta sé á greiðsluvanda og auknum vanskilum.

Einnig nefnir ráðið sérstaklega hættuna sem stafi af miklu og skyndilegu verðfalli eigna, sem geti haft verulega áhrif á fjármálamarkaði og ógnað stöðu fjármálafyrirtækja.

Þá telur ráðið hættu stafa af aukinni skuldsetningu hins opinbera og þeim neikvæðu áhrifum sem slíkt getur haft á fjármálamarkaði og þar með fjármálafyrirtæki.

Vakin er athygli á því að tölvuárásir geti gert mikinn skaða í starfsumhverfi einstakra fyrirtækja, heilla atvinnugreina og jafnvel hagkerfi heilla þjóða.