Samkeppniseftirlitið telur að núverandi eignarhald ríkisins á tveimur viðskiptabankanna þriggja sé ekki heppilegt í samkeppnislegu tilliti. Engu að síður sé mikilvægt að stjórnvöld undirbúi sölu á eignarhlut sínum í Íslandsbanka vel og meti áhrif hennar á samkeppni. Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins vegna söluáformanna.

„Mikilvægt atriði við mat á samkeppnislegum áhrifum sölunnar er að átta sig á því hverjir eru líklegir til að verða kaupendur að eignarhlutnum," segir í umsögn eftirlitsins. Vísað er til greinargerðar fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem fram kemur að ólíklegt sé að erlendur banki sýni áhuga á að eignast hlut í íslenskum banka eins og staðan er í dag. Telur eftirlitið því einsýnt að lífeyrissjóðir verði á meðal stærstu kaupenda, gangi útboðið eftir og að meta þurfi samkeppnisleg áhrif af slíkri niðurstöðu.

Samkeppniseftirlitið bendir á að samanlagður eignarhlutur þeirra lífeyrissjóða sem eiga yfir 1 prósents hlut í Arion banka, öðrum aðalkeppinauti Íslandsbanka, nemi um 35 prósent af heildarhlutafé bankans.

„Samkeppniseftirlitið hefur áður bent á að það geti haft samkeppnishömlur í för með sér ef sömu fjárfestar eiga í mörgum eða öllum fyrirtækjum í sömu atvinnugrein,“ segir í umsögninni.

„Í öðru lagi verður að hafa í huga að lífeyrissjóðirnir eiga í mörgum tilvikum hagsmuna að gæta sem eigendur helstu viðskiptavina bankanna. Fyrir liggur að lífeyrissjóðir eiga í mörgum tilvikum veigamikinn eignarhlut í fleiri en einu atvinnufyrirtæki á sama markaði. Huga þarf sérstaklega að áhættum sem fylgja slíkum hagsmunatengslum, ekki síst ef til þess kæmi að sömu lífeyrissjóðir ættu að auki veigamikinn eignarhlut í fleiri en einum viðskiptabanka.“

Þriðja atriðið sem eftirlitið nefnir er að lífeyrissjóðir eru viðskiptavinir bankanna á ýmsum sviðum, á grundvelli stöðu sinnar sem veigamiklir ráðstöfunaraðilar fjármagns í landinu. Þeir taka því þátt í fjármögnun bankanna, eru m.a. fjárfestar í verkefnum banka og sjóða á þeirra vegum og þiggja margvíslega ráðgjöf frá bönkunum

„Síðast en ekki síst verður að hafa í huga að lífeyrissjóðirnir eru á sama tíma að nokkru leyti í samkeppni við bankana á lánamarkaði. Lífeyrissjóðirnir keppa við bankana á íbúðalánamarkaði en einnig veita þeir bönkunum ákveðið aðhald á sviði fleiri tegunda lána með því að fjárfesta í sjóðum sem stofnaðir hafa verið til kaupa á skuldabréfum fyrirtækja. Eignarhald lífeyrissjóðanna á bönkunum virðist þannig geta haft tiltekna hagsmunaárekstra í för með sér fyrir lífeyrissjóðina.“

Með hliðsjón af þessum atriðum, og fleirum sem koma fram í umsögninni, leggur Samkeppniseftirlitið til að eftirfarandi verði haft að leiðarljósi vegna sölu Íslandsbanka úr hendi ríkisins. Að stefnt verði að sem fjölbreyttustu eignarhaldi aðila sem eru líklegir til að hafa að leiðarljósi langtímahagsmuni af traustum bankarekstri. Að kaupendur að stórum hlutum Íslandsbanka eigi ekki jafnframt hlut í keppinautum bankans. Og að kaupendur bankans séu ekki mikilvægir keppinautar hans því slíkt gæti leitt til skerðingar á samkeppni á viðkomandi markaði.