Netöryggissveitin CERT-IS varra við svikaherferðum í tengslum við stóra netverslunardaga. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Póst-og fjarskiptarstofnunarinnar.
Síðustu daga hefur Netöryggissveitin séð aukningu í svikaherferðum í nafni flutningafyrirtækja. Aukninguna má rekja til stórtilboðsdagsins „Dagur Einhleypra“ þann 11. nóvember þar sem verslanir kepptust við að hafa tilboð á vefverslunum sínum og bjóða upp á heimsendingarþjónustu.
Sveitin varar sérstaklega við því að svikarar nýta sér slíka viðburði til að hrinda af stað slíkum svikaherferðum. Búast má við fleiri herferðum nú þegar „Svartur föstudagur“ og „Netmánudagur“ eru í vændum.
Svikaherferðirnar virka þannig að sett er upp fölsk vefsíða þar sem notandi er minntur á að greiða sendingarkostnað vegna nýlegra vörukaupa.
Síður sem þessar verða sífellt trúverðugri og getur reynst erfitt að greina svikasíður frá raunverulegum greiðslusíðum.
Áður en kreditkortanúmer er gefið upp er því gott að staldra við og hugsa hvort það sé eitthvað sérkennilegt við greiðslusíðuna eða tilkynninguna.