Fjöldi at­vinnu­lausra í Bret­landi jókst um 220 þúsund manns á milli apríl og júní en um er að ræða mestu aukningu á at­vinnu­leysi milli árs­fjórðunga frá árinu 2009. Að því er kemur fram í upp­lýsingum frá bresku hag­stofunni, og BBC greinir frá, hafa yngstu og elstu starfs­mennirnir, sem og þeir sem eru í verka­manna­vinnu, komið verst út úr far­aldrinum.

Jon­a­t­han At­how, töl­fræðingur sem starfar við land­hags­skýrslu­gerð hjá bresku hag­stofunni, sagði að staðan væri á­hyggju­efni þar sem það reynist erfiðara fyrir þessa hópa til þess að finna nýja vinnu eða ganga í störf jafn auð­veld­lega og aðrir starfs­kraftar. At­vinnu­leysi er nú um 3,9 prósent og hefur haldist að mestu ó­breytt frá fyrri árs­fjórðungi þökk sé hluta­bóta­leið yfir­valda.

Atvinnuleysi muni aukast

Meðal­tal fjölda vinnu­stunda hefur lækkað tölu­vert en vinnu­stundirnar hafa að meðal­tali ekki verið færri það sem af er ári. Þá hafa laun lækkað um 0,2 prósent milli ára en það er í fyrsta sinn sem laun lækka frá því að mælingar hófust árið 2001.

Þökk sé hluta­bóta­leiðinni hefur at­vinnu­leysi ekki aukist jafn mikið og óttast var vegna CO­VID-19 heims­far­aldursins en sér­fræðingar telja að at­vinnu­leysi muni aukast á næstu mánuðum þegar hluta­bóta­leiðinni verður að lokum hætt. Þá hafa þeir hafa varað við „logninu á undan storminum“ þegar að því kemur.

Að mati hagfræðings hjá Capital Economics má búast við að atvinnuleysi verði um sjö prósent árið 2021.