Varða Capital og Eignarhaldsfélagið VGJ eru þátttakendur í tilboði Siglu og Alfa framtaks til hluthafa Heimavalla. Boðist er til að kaupa allt að 27 prósenta hlut í leigufélaginu fyrir allt að fjóra milljarða króna. Það kemur til greina að festa kaup á stærri hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Gert er ráð fyrir því að íbúðaleigufélagið Heimavellir verði leyst upp og eignir þess seldar í skömmtum ef hluthafar félagsins samþykkja að taka það af hlutabréfamarkaði, að því er fram hefur komið í Markaðnum.

Félög á vegum Siglu eiga tæplega 19 prósenta hlut í Heimavöllum, Eignarhaldsfélagið VGJ á tæplega tvö prósenta hlut en hvorki Varða Capital né Afla framtak eiga í leigufélaginu.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að tilgangurinn með tilboðinu sé að greiða fyrir afskráningu Heimavalla og veita þeim hluthöfum sem hugnist ekki afskráning þann kost að selja hlutabréf sín.

Ljóst er að seljanleiki bréfanna mun minnka við afskráningu úr kauphöll og upplýsingagjöf verður takmarkaðri. Þetta getur verið forsendubrestur og áhættuþáttur sem einhverjir hluthafar vilja forðast,“ segir í tilboðinu.

Heimavellir, sem er stærsta íbúðaleigufélag landsins með tæplega tvö þúsund íbúðir í rekstri, var skráð á aðallista Kauphallarinnar í seinni hluta maímánaðar í fyrra. 

Mikil lækkun á hlutabréfaverði Heimavalla undanfarna mánuði hefur gert það að verkum að bókfært virði eigin fjár félagsins hefur haldist umtalsvert hærra en markaðsvirði þess. Hefur munurinn að jafnaði numið um sex milljörðum króna.

Vegið meðalgengi í hlutafjárútboði félagsins var 1,39 krónur á hlut en verð samkvæmt tilboðinu er 1,3 krónur á hlut.