Þórður Gunnarsson
Miðvikudagur 15. júlí 2020
06.30 GMT

Nú þegar Rio Tinto Alcan hefur tilkynnt að einu álvera fyrirtækisins verði lokað í ágúst á næsta ári, hafa spurningar um framtíð álversins í Straumsvík vaknað á ný. Aðstæður og aðdragandi lokunar álversins á Nýja-Sjálandi á sér vissar hliðstæður við þær aðstæður sem nú eru uppi vegna reksturs álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Deilur um orkukostnað, og einkum og sér í lagi flutningskostnað álversins við Tiwai Point, hafa staðið yfir allt frá árinu 2012, þó að auðvitað sé augljóst að þungar horfur á heimsmarkaði með ál, einkum og sér í lagi vegna umframframleiðslu í Kína, hafi sitt að segja líka.

Álverið við Tiwai Point hóf álframleiðslu árið 1971. Upphafleg framleiðslugeta þess var um 153 þúsund tonn á ári, en síðan þá hefur álverið verið stækkað nokkrum sinnum og full afkastageta í dag nemur um 330 þúsund tonnum. Miklar deilur áttu sér stað á Nýja-Sjálandi fyrir byggingu álversins, en ráðast þurfti í miklar virkjanaframkvæmdir á Manapouri-vatnasvæðinu til að útvega álverinu rafmagn. Álverið er kaupandi um 13 prósenta allrar framleiddrar raforku á Nýja-Sjálandi, en nú þarf að finna þeirri orku nýjan farveg. Að sama skapi er þetta skellur fyrir hið staðbundnahagkerfi álversins, en talið er að um 2.500 bein og óbein störf muni tapast vegna lokunar álversins.

Álverið við Tiwai Point er knúið áfram af endurnýjanlegri orku, rétt eins og í Straumsvík, en því hefur verið haldið fram að þau álver sem nota hreina orku eigi betri möguleika á áframhaldandi starfsemi til framtíðar en önnur.

Til að mynda hélt sérfræðingurinn Justin Hughes, frá hrávörugreiningarfyrirtækinu CRU, því fram í viðtali við Viðskiptablaðið í maí 2018, að kaupendur áls væru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir „grænt ál“, enda sé samfélagsleg ábyrgð fólgin í því að kaupa frekar slíka vöru.

Með lokun álversins við Tiwai Point er augljóst að önnur sjónarmið en tegund orkugjafa ráða ákvörðunum um lokun álvera, sérstaklega í ljósi þess að allt að því öll álframleiðsla Kína er knúin áfram með brennslu kola, einhvers mest mengandi orkugjafa sem fyrirfinnst.


Helmingi minna tap en ISAL


Að því er kemur fram í umfjöllun nýsjálenska blaðamannsins Richard Harman, tapaði álverið við Tiwai Point um 46 milljónum dala á árinu 2019, eða um 6,5 milljörðum króna. Til samanburðar tapaði álverið í Straumsvík um 13 milljörðum króna á síðasta ári, en er framleiðslugeta Straumsvíkur þó nærri helmingi minni en Tiwai Point.

Það þarf því ekki að koma á óvart að blikur séu á lofti varðandi rekstrar­forsendur álversins í Straumsvík, eins og oft og ítrekað hefur verið greint frá á opinberum vettvangi.

Sagt var frá því í Markaðnum í febrúar á þessu ári að raforkuverð ISAL fyrir hverja megavattstund er um 38 dalir, að sögn viðmælenda sem þekktu vel til. Í verðinu er raforkuflutningur innifalinn, sem er talinn nema um sex dölum. Þá er Rio Tinto sagt borga 26 dali með flutningi fyrir hverja megavattstund í Kanada. Þó ber að nefna að Landsvirkjun hefur veitt stórnotendum allt að 25 prósenta afslátt af raforkuverði fram á haust, til að bregðast við erfiðum aðstæðum á allflestum hrávörumörkuðum.

Jafnframt standa yfir viðræður Rio Tinto Alcan og Landsvirkjunar um endurskoðun raforkusamningsins, en ekki hefur náðst lending í þeim málum. Landsvirkjun hefur haldið því fram að móðurfélagsábyrgð sé í gildi á samningum Rio Tinto Alcan um orkukaup, að lágmarki um 80 prósent af umsömdu magni, fram til ársins 2036. Endurskoðunarákvæði núverandi samninga er hægt að virkja árið 2024. „Við höfum ekki enn náð
samkomulagi við Landsvirkjun um raforkusamning sem gerir ISAL samkeppnishæft,“ segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi.


Orkan hrein víðar en hér


Rio Tinto hefur sagt að öll álver sem ekki falli undir kjarnastarfsemi fyrirtækisins kunni að verða lokað, en álverin í Straumsvík, Tiwai Point og í Ástralíu hafa sérstaklega verið nefnd til sögunnar í því samhengi.

Flest álver Rio Tinto eru starfrækt í Kanada. Þar í landi er um 60 prósent allrar rafmagnsframleiðslu frá vatnsafli. Því ættu álverin þar að geta selt sína vöru sem grænt ál, rétt eins og álverin á Íslandi.

Álverið í Straumsvík er næststærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar, en miðað við full afköst er fyrirtækið kaupandi að um 23 prósentum allrar framleiðslu Landsvirkjunar, að því er fram kom í ársskýrslu Landsvirkjunar árið 2018. Straumsvík hefur þó aðeins starfað á 85 prósenta afköstum frá áramótum, að því er talsmaður Rio Tinto á Íslandi sagði í samtali við Markaðinn í júní.

Álverið í Straumsvík er næststærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar, en miðað við full afköst er fyrirtækið kaupandi að um 23 prósentum allrar framleiðslu Landsvirkjunar.
Ljósmynd/Hreinn Magnússon


Linnulaus aukning í Kína


Álframleiðslugeta í Kína hefur vaxið ævintýralega á síðastliðnum 10 árum. Aukin framleiðsla og útflutningur Kína er líklega ein ástæða þess að álverinu við Tiwai Point var lokað, en nánast öll framleiðslan þaðan var seld til Japan og samkeppnisforskot kínverskra fyrirtækja því augljóst, meðal annars með tilliti til fjarlægðar frá viðskiptavinum.

Kínverskir útflytjendur áls fá að sama skapi endurgreiddan virðisaukaskatt af ákveðnum álafurðum við útflutning, og oft og tíðum afslátt­arkjör á raforku. Í maí á þessu áru voru um 5,45 milljónir tonna af áli framleidd á heimsvísu, en þar af voru um 57 prósent framleidd í Kína, samkvæmt gögnum frá World Aluminum Institute. Sé litið tíu ár aftur í tímann, nam hlutfall Kína af heildarframleiðslunni um 42 prósentum og fyrir 20 árum stóðu kínverskir framleiðendur að baki um 11 prósenta af heildarálframleiðslu heimsins.

Af fimm stærstu álframleiðendum heims er þrír kínverskir - Chalco, Hong­qiao Group og Xinfa. Hinir tveir hinna fimm stærstu eru hið rúss­n­eska Rusal og loks Rio Tinto Alcan.

Langstærsti hluti kínverskra álvera en knúinn áfram með brennslu kola. Nánast öll afkasta­aukn­­ing í álframleiðslu síðast­liðin 20 ár, hefur átt sér stað í Kína og í nán­ast öllum tilfellum hafa kola­orkuver risið til að knýja þau. Afleiðingin er sú að kol eru aðalorkugjafi álframleiðslu á heims­­vísu, að því er kom fram í máli sér­­fræð­­inga á ráðstefnunni International Aluminum á síðasta ári.

Ljóst er að Kína ræður ferðinni í álframleiðslu í heiminum sem stend­ur. Sjónarmið um grænt ál eiga lítt upp á pallborðið þar í landi og því eiga hinir hefðbundnu álframleið­endur í hinum vestræna heimi við erfiðan andstæðing að etja.


Deilt um flutningskostnað


Árið 2016 stóðu yfir miklar deilur um flutningskostnað álversins á Nýja-Sjálandi. Álverið var byggt um 40 kílómetra frá virkjuninni við Manapouri, en forsvarsmenn fyrirtækisins héldu því fram að greiddur flutningskostnaður væri í engu samræmi við notkun þeirra á dreifikerfinu, sem er um tólf þúsund kílómetrar að lengd í heild sinni.

Því lögðu þar til bær yfirvöld á Nýja Sjálandi til árið 2017 að verðlagningu rafmagns yrði breytt þannig að notendur greiddu flutningskostnað til samræmis við notkun sína á dreifikerfinu. Hefði tillögurnar gengið eftir hefði flutningskostnaður álversins við Tiwai Point lækkað um ríflega þriðjung eða 20 milljónir nýsjálenskra dollara, sem samsvarar um 3,6 milljörðum króna. Á móti hefði flutningskostnaður til heimila í höfuðborginni Auckland hækkað um 44 prósent, en meðalaukning á heildarorkukostnaði á hvert heimili í höfuðborginni var metin um 50 nýsjálenskir dalir á ári, eða um 4.500 íslenskar krónur.

Höfuðborgin Auckland er staðsett nyrst á norðureyju NýjaSjálands, á meðan álverið Tiwai Point er syðst á suðureyjunni. Engin veruleg orkuframleiðsla fer fram nálægt höfuðborginni Auckland, en ráðist hafði verið í miklar umbætur á dreifikerfinu árin og áratugina á undan til að svala raforkuþörf vaxandi höfuðborgarinnar.

Á endanum féllu tillögurnar þó um sjálfar sig. Var það meðal annars talið vegna þess að nýr orkumálaráðherra tók við og var sá þingmaður Auckland. Breytingar á greiðslu flutningskostnaðar voru á endanum útfærðar þannig að sparnaður Tiwai Point varð miklu minni en lagt var upp með og verðhækkun til heimila í Auckland varð aðeins um 4,5 prósent.

Bandaríski álframleiðandinn Alcoa, sem meðal annars á og rekur álver Fjarðaáls á Reyðarfirði, tilkynnti í apríl að einu álveri fyrirtækisins í Washington í Bandaríkjunum yrði lokað

Alcoa lokar öðru álveri í Bandaríkjunum


Bandaríski álframleiðandinn Alcoa, sem meðal annars á og rekur álver Fjarðaáls á Reyðarfirði, tilkynnti í apríl að einu álveri fyrirtækisins í Washington í Bandaríkjunum yrði lokað. Uppsagnir hófust þá þegar og áætlað er að rekstrarstöðvun álversins verði lokið áður en árið er úti. Fram kom í máli fyrirtækisins að tap af rekstrinum hefði numið 24 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi einum og sér, eða tæplega 3,4 milljörðum króna. Afkastageta álversins er um 279,000 tonn. Alcoa glímir við sömu áskoranir og Rio Tinto Alcan þessi misserin, en mikið innflæði kínversks áls til Bandaríkjanna á síðustu árum, hefur veikt mjög samkeppnisstöðu álvera þar í landi. Á árunum 2013 til 2018 dróst frumframleiðsla áls saman um 62%, að því er kemur fram hjá hagsmunasamtökunum American Primary Aluminum Association (APPA).

Donald Trump tilkynnti í mars árið 2018 að framvegis yrðu 25 prósenta innflutningstollar á stáli og 10 prósent á álafurðir. Var þetta gert til að tryggja samkeppnisstöðu álframleiðendanna þriggja með frumframleiðslu í Bandaríkjunum. Þar er um að ræða Alcoa, Century Aluminum sem einnig rekur álverið á Grundartanga og loks Magnitude 7 Metals (M7M). Síðastnefndu tvö fyrirtækin standa að APPA-samtökunum.  

Hins vegar var Kanada undanþegið frá innflutningstollum á áli í maí á síðasta ári. Afleiðingin varð sú að innflutningur á hreinu áli jókst um 46 prósent milli ára á fyrsta fjórðungi þessa árs. Álframleiðsla hefur að vísu aukist nokkuð í Kanada frá því á síðasta ári, þegar eitt stærsta álver landsins í Becancour hóf aftur fulla framleiðslu eftir tveggja ára langa vinnudeilu.

Ekki er mikil samstaða meðal bandarískra frumframleiðenda áls um hvernig eigi að bregðast við auknum innflutningi frá Kanada, að því er kemur fram í umfjöllun Reuters. Í eina röndina halda Century Aluminum og M7M því fram að innflutningurinn frá Kanada sé að ganga endanlega frá þeim áliðnaði sem ennþá lifir á bandarískri grundu. Því verði að taka upp innflutningstolla á kanadískt ál á nýjan leik. Alcoa heldur því hins vegar fram að áhyggjur af álinnflutningi frá Kanada, skyggi einfaldlega á hið stóra vandamál sem er ofvöxtur kínverskrar framleiðslu og sú óhagfellda verðlagning sem henni fylgi.  

Það er þó kannski ekki undarlegt að Alcoa taki þennan pól í hæðina þar sem þrjú álver fyrirtækisins eru staðsett í Kanada, þar með talið áðurnefnt álver við Becancour. Alls er ríflega um fjórðungur allrar álframleiðslugetu Alcoa í Kanada.

Flestöll álver í Bandaríkjunum eiga það sammerkt að vera í eldri kantinum og því er hagkvæmni framleiðslunnar minni en á við um nýrri álver, sem eru velflest í Kína. Í þessu samhengi verður þó að hafa í huga að mikilvægt er fyrir Bandaríkin að hafa traustan aðgang að áli, þar sem málmurinn er mikilvægur við ýmsa framleiðslu. Stærsti útflytjandi hrááls á heimsvísu er Rússland, á meðan Kína stendur fremst í útflutningi af álblöndum af ýmsu tagi. Bent hefur verið á að ekki sé boðlegt að treysta á álframboð frá slíkum viðskiptafélögum – það þarf ekki að horfa lengra en til mikilvægis áls við hergagnaframleiðslu til að sjá að slíkt er ekki á vetur setjandi.

Athugasemdir