Vanguard, stærsta fyrirtækið í stýringu verðbréfasjóða í Bandaríkjunum, var á meðal þátttakenda í hlutafjárútboði Marel sem lauk í júní en sjóður í stýringu félagsins – Van­guard International Explorer Fund – á tæplega 1,2 milljónir hluta í fyrirtækinu sem er metinn á um 700 milljónir miðað við núverandi hlutabréfaverð. Þetta má sjá í nýju árshlutauppgjöri en í lok júní átti sjóður félagsins sem nemur 0,15 prósenta hlut í Marel.

Þá hefur sjóður í stýringu Columbia Threadneedle – European Smaller Companies Fund – bæst við hluthafahóp Marel, að því er fram kemur í bréfi til sjóðfélaga í júlí. Ekki er hins vegar að finna upplýsingar um hversu stór hlutur sjóðsins er.

Samnlagður eignarhlutur alþjóðlegra fjárfesta í hluthafahópi Marels hefur aukist úr 3 prósentum í 30 prósent frá því í ársbyrjun 2018. Hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um 57 prósent frá áramótum og nemur markaðsvirði þess um 447 milljörðum króna.