Dæmi eru um að flutningskostnaður frá Kína til Íslands hafi þre- til fimmfaldast á milli ára vegna gámaskorts ytra sem rekja má til COVID-19. Það gæti leitt til þess að verð á ódýrari innfluttri matvöru, eins og hrísgrjónum og núðlum, hækki tímabundið um 20–40 prósent. Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Slæmt ástand

„Ástandið er slæmt,“ segir Lárus Óskarsson, framkvæmdastjóri Aðfanga, sem er heildsala í eigu Haga. Hann segir að sendingar frá Asíu hafi tafist vegna þess að ekki sé pláss í skipum og að gámar standi ekki á lausu þegar á þurfi að halda. „Við höfum lent í allt að eins mánaðar töf á afgreiðslu frá birgja vegna gámaskorts,“ segir hann.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Ólafur segist hafa heyrt af því að kostnaður við að flytja gám frá Kína, sem hafi verið 400–500 þúsund krónur fyrir ári, sé kominn yfir tvær milljónir. „Þetta hefur óhjákvæmilega áhrif á verðlag vara frá Asíu, einkum og sér í lagi ódýrari vöru, þar sem flutningskostnaðurinn er hærra hlutfall af innflutningsverðinu. Við getum tekið dæmi af matvöru eins og hrísgrjónum eða núðlum. Verð á slíkum vörum gæti hækkað um 20–40 prósent en sú hækkun er væntanlega tímabundin, að því gefnu að ástandið í alþjóðlegum skipaflutningum komist aftur í eðlilegt horf með því að faraldurinn réni í kjölfar bólusetninga.“

Hækkanir víðar í Asíu

Lárus segir aðspurður að það sé „ekki fjarri lagi“ að heildarkostnaður við flutning frá Kína nemi orðið tveimur milljónum króna. Hann segir að flutningur frá ýmsum öðrum Asíulöndum hafi hækkað. „Til dæmis hefur flutningur frá Taí­landi hækkað allverulega líka og þar er ekki minni hækkun hlutfallslega en frá Kína. Það er mjög mikið flutt inn frá Austurlöndum af tilbúnum matvælum sem og hráefnum. Það er því ljóst að kostnaðarverð á mörgum tilbúnum vörum og vöruflokkum hækkar hjá þeim sem flytja inn vörur frá Austurlöndum, hvort sem er beint eða í gegnum vöruhús í Evrópu. Flokkar eins og núðlur, hrísgrjón, túnfiskur, ananas, kókósmjólk og frosnir ávextir, koma fyrst upp í hugann.“

Fram kom í Markaðnum fyrir um mánuði að gámaskorturinn í Kína hafi leitt til þess að útflytjendur yfirbjóða hver annan því mikil eftirspurn væri eftir flutningi. Enn fremur sé tekið COVID-19 sýni úr hverjum frystigámi sem fluttur sé til Kína, sem hafi gert það að verkum að það geti tekið um 20 daga að afgreiða hann úr höfninni.

Mikið framleitt í Kína og flutt til Evrópu

Bragi Þór Marinósson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips, sagði við Markaðinn fyrir um mánuði að á fyrri hluta ársins 2020 hafi stóru skipafélögin dregið úr flutningum á milli Asíu og Evrópu vegna minni eftirspurnar. Eftirspurnin hafi hins vegar glæðst síðar á árinu. „Það er ekki sjálfgefið að vöruflutningar séu jafnir í báðar áttir. Það er til að mynda mikið framleitt í Kína og flutt til Evrópu. Það gerði það að verkum að það söfnuðust upp tómir gámar í Evrópu.“

Bragi Þór Marinósson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips.
Mynd/Aðsend