Vandað ehf. mun í dag opna nýtt brugghús í Skipholti. Sigurður Pétur Snorrason stofnandi félagsins segir að markmið fyrirtækisins sé að framleiða góða og vandaða bjóra fyrir alla. Sigurður starfaði í um 20 ár á verðbréfamarkaði, þar af 18 ár á Wall Street, en ákvað að stofna brugghúsið árið 2017, sem markaðssett hefur vörur sínar sem RVK Bruggfélag / RVK Brewing Co.

„Brugghúsið er lítið og hefur frá upphafi verið rekið með tapi, ekki síst vegna þess að við réðum dýrt starfsfólk því við vildum ekki spara þar því það myndi koma niður á gæðum,“ segir Sigurður og bætir við að um þessar mundir sé að hans mati góður tími til að stofna nýtt brugghús.„Ég hef trú á að það sé blómlegur tími fram undan eftir Covid og við finnum að fólk er þyrst í nýjungar og spennandi vörur. Ég er spenntur fyrir framhaldinu.“

Sigurður tekur þó fram að áfengisframleiðsla á Íslandi sé ekki auðveld. Hér séu ein hæstu áfengisgjöld í heimi og aðrar hömlur á starfsemina séu talsverðar.

„Hér má til dæmis ekki auglýsa vöruna, við erum bundin við fáa seljendur og hér ríkir í raun tvíkeppni þar sem smáir framleiðendur eiga erfitt með að fá athygli.“

Hann bætir við að handverksbrugghúsin taki á sig áfengisgjöldin fremur en að velta þeim yfir á neytendur.

„Það má sjá ef borið er saman verð á handverksbjórum í öðrum löndum þar sem lítil eða engin áfengisgjöld eru, til dæmis í Danmörku og að einhverju leyti í Bandaríkjunum. Þegar ég var í forsvari fyrir Samtök íslenskra handverksbrugghúsa töluðum við um að fá þau lækkuð á smáa framleiðendur, eins og tíðkast í flestum löndum EES.“

Sigurður segir ástæðuna fyrir því að þeir hafi ákveðið að ráðast í stækkun vera fyrst og fremst til að auka hagkvæmni og framleiðslugetu.

„Við erum að fjárfesta yfir 175 milljónum króna í nýju brugghúsi. Það er alfarið fjármagnað með fé frá eigendum og lánsfé utan fjármálastofnana. Við væntum þess að geta framleitt talsvert meira magn með sama starfsmannafjölda til skamms tíma. Þó við þurfum vissulega að bæta við starfsfólki á einhverjum tímapunkti.“

Sigurður segir að mikilvægt sé að hafa í huga að það sé eitt að hafa framleiðslugetu og annað að selja vörurnar.

„Þar verður unnið mikið starf á næstunni til að koma með vörur sem ég held að sé pláss fyrir á markaðnum, jafnt áfengt sem óáfengt. Rekstur veitingastaða á Snorrabraut og svo væntanlega í Tónabíói eru líka liður í að koma framleiðslu okkar beint til viðskiptavinar. Þá tökum við líka fagnandi möguleika á að selja beint frá framleiðslustað til fólks sem kemur til okkar og vill fá með sér heim.“