Þeir eru ekki nýgræðingar í pizzabransanum en saman reka þeir pizza matarvagninn PopUp Pizza sem hefur verið að gera góða hluti í matarvagnamenningunni.
Valli stofnaði Íslensku Flatbökuna í febrúar 2015 og fagnaði því 8 ára starfsafmæli nú á dögunum. Ásamt því að hafa rekið flatbökuna þá er Valli einn af eigendum Indican, ásamt Páli Óskari sem steig sín fyrstu skref í veitingarbransanum nú á dögunum.
Valli var spurður hvers vegna hann væri að selja.
„Flatbakan er barnið mitt sem ég hef nært og gefið alla mína athygli og orku síðastliðin 8 ár. Það hefur gengið vel og ég er virkilega þakklátur fyrir það. En upp á síðkastið hef ég þurft að sinna hinu barninu mínu sem er Indican og öll mín orka og athygli fer í það núna ásamt öðrum verkefnum. Mér fannst því vera kominn tími á að rétta flatböku-kyndilinn áfram. Mér þykir virkilega vænt um Flatbökuna og því skipti það mig miklu máli að kyndillinn færi áfram í réttar hendur. Ég er búinn að þekkja Pál í mörg ár, hann vann fyrir mig á flatbökunni á sínum tíma og hefur verið spenntur í langan tíma að koma að rekstri flatbökunnar. Ég er sannfærður um að Páll og Hafþór muni koma sterkir inn og halda áfram því góða starfi sem ég og mitt frábæra starfsfólk höfum gert hingað til.“

Verða einhverjar breytingar með eigendaskiptunum ?
„Það verða auðvitað einhverjar áherslubreytingar sem fylgja nýjum eigendum og allar af því góða. Páll og Hafþór ætla að byggja áfram á traustum grunni. Ég myndi aldrei láta Flatbökuna frá mér nema vita að hún væri í góðum og traustum höndum.“
Hvernig er tilfinningin að vera ekki lengur Valli flatbaka?
„Ég held ég heiti Valli flatbaka í símaskránni hjá 80 prósent af fólki sem ég þekki. Auðvitað er þetta skrítin tilfinning. Þetta er samt ekki mikil breyting, Valli flatbaka breytist í Valli Indican og í staðinn kemur Palli flatbaka,“ Segir Valli léttur í lund.
Valli er samt ekki alveg búinn að leggja pizzaspaðann á hilluna því að hann ætlar að standa síðustu vaktina á Flatbökunni sunnudaginn 19.mars.
„Já ég ætla sjálfur að standa síðustu vaktina. Mig langar að kveðja með stæl og ætla að bjóða allar pizzur á 2500 kr. og láta 500 kr. af hverri seldri pizzu renna til góðgerðamála. Ég vonast til að sjá sem flesta af okkar æðislegu viðskiptavinum sem hafa verslað við okkur síðustu ár. Ég lofa að gráta ekki of mikið ofan í pizzurnar ykkar.“