Greiðslumiðlunin Valitor, dótturfélag Arion banka, tapaði hátt í 2,8 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins.

Þetta kemur fram í árshelmingsuppgjöri Arion banka sem birt var í gær. Rekstrartekjur Valitors námu 1.982 milljónum króna en þær námu 3.221 milljónum á fyrri helmingi síðasta árs. Rekstrargjöld jukust úr 3.922 milljónum króna í 5.109 milljónir á milli ára.

Valitor féllst í júlí á að greiða Datacell og Sunshine Press Productions (SPP) samtals 1.200 milljónir króna í skaðabætur fyrir að slíta samningi um greiðslugátt fyrir söfnunarfé til WikiLeaks sumarið 2011.

Með samkomulaginu lauk áralöngum deilum og málaferlum félaganna fyrir dómstólum. Valitor hafði áður sent frá sér tilkynningu í lok maímánaðar þar sem fram kom að það hyggðist áfrýja fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem komst að þeirri niðurstöðu að félaginu væri gert að greiða Datacell og SPP 1.200 milljónir króna í bætur.

Stripe, sem var einn stærsti viðskiptavinur Valitor, hætti ­við­skiptum sínum við Valitor um mitt ár 2018. Valitor Hold­ing tap­aði 1,9 millj­arði króna í fyrra en félagið hafði skilað um 940 milljón króna hagn­aði árið á undan. Var þessi ákvörðun Stripa sögð hafa haft talsverð áhrif á vöxt tekna og viðskipta Valitor á árinu.

Valitor hefur nú aftur samið við fjártæknifyrirtækið til tveggja ára. Viðar Þorkelsson sagði í kjölfarið við Fréttablaðið að samstarfið væri ekki af sömu stærðargráðu og áður en hefði engu að síður jákvæð áhrif á reksturinn.

Þá sagði Viðar nýlega í samtali við Fréttablaðið að afkoma kortafyrirtækjanna hefði ekki verið góð síðustu ár, meðal annars vegna þess að þau hefðu snemma aðlagað sig væntingum um lækkun kortagjalda.

Valitor er í söluferli og er ætlunin að selja fyrirtækið að hluta eða fullu. Væntir Arion banki þess að salan gangi í gegn á þessu ári.