Valgerður Sigrúnar Vigfúsardóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður viðskiptadeildar og leiðir hún deild þjónustu- og viðskiptastjóra. Áður starfaði hún hjá A4 í 17 ár og hefur víðtæka reynslu af sölustýringu. Hjá A4 stýrði hún uppbyggingu húsgagnadeildar og var sölustjóri. Valgerður er verkefnastjóri og markþjálfi að mennt.

„Það eru mörg spennandi verkefni fram undan hjá Terra umhverfisþjónustu núna þegar lagabreytingar um úrgangsmál hafa tekið gildi sem kallar á virkt samtal og samvinnu með viðskiptavinum okkar. Umhverfismál er stóra málið í dag og það er einstakt tækifæri að fá að taka þátt í þeirri vegferð með fjölda fyrirtækja á landinu, ég hlakka til ferðalagsins,“ segir Valgerður.

Jóhannes Karl Kárason hefur verið ráðinn sem forstöðumaður akstursþjónustu og leiðir hann daglegan rekstur og skipulag akstursþjónustu félagsins. Hann kemur frá Samskipum þar sem hann starfaði sem flotastjóri. Þar áður starfaði hann sem framleiðslustjóri hjá Kerecis á Ísafirði.  Hann útskrifaðist með B.Sc. í virðiskeðju-stjórnun frá Tækniháskólanum í Horsens í Danmörku.

„Hjá Terra umhverfisþjónustu eru gríðarlega spennandi tímar fram undan og margvíslegar áskoranir en ekki síður tækifæri. Við viljum vera til fyrirmyndar í skipulagningu akstursþjónustu fyrir viðskiptavini okkar en ekki síður fyrir umhverfið.  Það er frábært tækifæri að fá að leiða akstursþjónustu Terra umhverfisþjónustu í þessum leiðangri, og með frábæru samstarfsfólki sem keppist við að láta gott af sér leiða fyrir umhverfið,” segir Jóhannes.

Guðmundur Páll Gíslason, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Terra, er mjög ánægður með að fá Valgerði og Jóhannes til liðs við fyrirtækið.

„Það er nóg fram undan hjá Terra umhverfisþjónustu og það er mikill fengur að fá þessa stjórnendur með sína víðfeðmu reynslu til að taka þátt í frekari vexti Terra umhverfisþjónustu. Við bjóðum þau hjartanlega velkomin til starfa.“