Valdimar Ármann, sem var áður forstjóri GAMMA Capital Management, hefur verið ráðinn til verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance.

Valdimar, sem er hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur að mennt, staðfestir það í samtali við Markaðinn en hann hefur hafið störf sem sérfræðingur í markaðsviðskiptum félagsins.

Valdimar lét af störfum sem forstjóri GAMMA í september í fyrra, eftir að hafa stýrt félaginu frá því í ársbyrjun 2017, en áður hafði hann gegnt starfi framkvæmdastjóra sjóða hjá fjármálafyrirtækinu um margra ára skeið.

Þá starfaði Valdimar um árabil í London og New York við verðbólgutengd afleiðuviðskipti, fyrst hjá hollenska bankanum ABN AMRO og síðar Royal Bank of Scotland.