Vafi leikur á rekstrarhæfi Bílanausts en verulegur samdráttur tekna og tap hefur einkennt rekstur varahlutakeðjunnar síðustu ár.

Tekjur Bílanausts árið 2017 námu rúmum 1,4 milljörðum króna og drógust saman um 14 prósent á milli ára en yfir fimm ára tímabil hafa þær dregist saman um 35 prósent. Tap ársins 2017 nam 118 milljónum króna samanborið við 85 milljónir árið á undan. Uppsafnað tap yfir síðustu fimm ár er rúmlega 300 milljónir króna.

Í áritun óháðs endurskoðanda á ársreikningi félagsins er takið fram að stjórnendur eigi í viðræðum við viðskiptabanka Bílanausts þar sem félagið uppfylli ekki ákvæði lánasamninga. Verði lánin ekki gjaldfelld eða semjist ekki endurfjármögnun þeirra ríki óvissa um áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins.

Þá er athygli vakin á því að hreint veltufé frá rekstri sé neikvætt um 260 milljónir króna. Takist ekki að snúa þeirri þróun við leiki enn fremur vafi á rekstrarhæfi fyrirtækisins. Sömu athugasemdir voru gerðar við ársreikninginn fyrir árið 2016 en staða hreins veltufjár hefur versnað síðan þá.

Eignarhald í Bílanausti fer í gegnum félagið Efstasund. Er­lenda fé­lagið Cold­rock In­vest­ments lim­ited á 43,55 prósent í Efstasundi sam­kvæmt upp­lýs­ing­um úr árs­reikn­inga­skrá. Guðný Edda Gísladóttir, Gunn­ar Þór Gíslason, Eggert Árni Gíslason og Hall­dór Páll Gíslason eiga 9,11 prósent hver. Lár­us Blön­dal Sig­urðsson fer með 7,79 prósenta hlut og Heba Brands­dótt­ir 6,79 prósenta hlut en auk þeirra eru fjór­ir aðrir eig­end­ur með minni hlut­deild.

Bílanaust var stofnað árið 1962 og sameinaðist N1 árið 2007. Næstu ár var félagið ekki starfrækt undir vörumerkinu en árið 2012 var starfsemin færð í sérstakt félag. Efstasund keypti Bílanaust vorið 2013.