Heiðar Guðjónsson fráfarandi forstjóri fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar segir breytingar á eigendahópi fyrirtækisins fyrst og fremst til marks um sterka stöðu og trú fjárfesta.

Hann á ekki von á því að nýir hluthafar muni vilja skipta fyrirtækinu upp og aðgreina fjarskiptin frá fjölmiðlahlutanum.

„Raunar tel ég að það væri glapræði. Fyrirtækið virkar mjög vel í dag sem ein heild og ég held að nýir hluthafar hafi tröllatrú á því sem hefur verið gert í fyrirtækinu,“ segir Heiðar.

Hann segir jafnframt að hann hefði glaður viljað stýra fyrirtækinu áfram ef heilsan hefði ekki gripið í taumana.

Heiðar seldi öll hlutabréf sín í Sýn hf. fyrir um mánuði síðan og let af störfum sem forstjóri. Félagið Gavia Invest keypti bréf forstjórans og er í dag stærsti hluthafi í fyrirtækinu.

Sýn hf. rekur meðal annars Vodafone og fjölmiðlana Vísi, Stöð 2, Bylgjuna og fleiri. Gavia Invest keypti 12,72 prósenta hlut Heiðars á tæplega 2,2 milljarða króna.

Heiðar verður í ítarlegu viðtali í sjónvarpsþættinum Markaðnum á Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld. Þar ræðir hann um aðdraganda viðskiptanna en fer jafnframt yfir þær vendingar sem eru að eiga sér stað á fjarskipta- og fjölmiðlamarkaði.