Brottfarir ferðamanna frá Leifsstöð voru 108 þúsund í september og var mánuðurinn sá þriðji í röð með yfir 100 þúsund ferðamenn. „Eru þetta nokkru fleiri brottfarir en við höfðum vænst og því jákvæðar fréttir þrátt fyrir fækkunina milli mánaða,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í greiningu sem birtist á vef bankans.

Ferðamenn hingað til lands voru álíka margir á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs og í fyrra. „Horfur eru hins vegar á allnokkurri fjölgun fram til áramóta, borið saman við síðasta ár, og í kjölfarið er útlit fyrir allhraðan bata í greininni,“ segir í greiningunni.

Í nýlegri þjóðhagsspá Íslandsbanka var gert ráð fyrir að ferðamenn yrðu um 600 þúsund í ár. Miðað við þá spá ættu um 50 þúsund manns að sækja landið heim í mánuði hverjum út árið. „Þótt takmarkanir hafi verið hertar að áliðnu sumri virðist þó áhugi á heimsóknum hingað til lands talsverður, enda bólusetningar víða orðnar mjög útbreiddar og ferðavilji almennings bæði í Evrópu og Bandaríkjunum farinn að aukast á nýjan leik,“ skrifar Jón Bjarki. Nú telur bankinn líklegt að ferðamenn verði fleiri en 600 þúsund í ár.