Eign erlendra fjárfesta í íslenskum ríkisverðbréfum í krónum hefur hríðlækkað á skömmum tíma og er nú líklegast í sögulegu lágmarki. Eftir að eignastýringarfyrirtækið BlueBay Asset Management, sem var áður stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisskuldabréfa, seldi alla stöðu sína, nærri 50 milljarða króna, á aðeins liðlega þremur mánuðum má ætla að vægi erlendra sjóða hafi lækkað úr tólf prósentum í um fimm prósent. Það er umtalsvert lægra hlutfall en í samanburði við nýmarkaðsríki þar sem eignarhlutur erlendra fjárfesta á innlendum skuldabréfamörkuðum er að meðaltali um tuttugu prósent.

Hrafn Steinarsson, sérfræðingur í skuldabréfamiðlun hjá Arion banka, segir í samtali við Markaðinn að það „kæmi ekki á óvart ef við myndum sjá aukinn áhuga erlendra fjárfesta á innlendum ríkisskuldabréfum á næstu misserum og það væri heilbrigðismerki fyrir innlendan skuldabréfamarkað. Ávöxtunarkrafan, sem hefur hækkað um 0,45 til 0,6 prósentur á lengri ríkisbréfum frá í byrjun ágúst samhliða umtalsverðu útflæði erlendra sjóða, og vaxtamunur við útlönd getur verið aðlaðandi við núverandi aðstæður,“ útskýrir Hrafn.

Birgir Haraldsson, sjóðstjóri hjá Akta sjóðum, tekur í sama streng og segir að frá sjónarhóli nýrra erlendra fjárfesta ætti íslenskur skuldabréfamarkaður nú að vera álitlegur fjárfestingakostur.

„Lykilatriðið er krónan og hvernig Seðlabankastjóri hefur talað um að taka hana út fyrir sviga svo fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af henni. Aðgerðir bankans á gjaldeyrismarkaði tengjast þessu og á núverandi gildum er ljóst að kröftug gengisstyrking er mun líklegri en veiking þegar horft er inn í næsta ár. Meginsviðsmynd krónunnar er þannig mjög ósamhverf og jákvæðar fréttir af bóluefni gegn COVID-19 myndu efla hana til muna. Þetta skiptir miklu máli fyrir erlenda aðila sem væru að líta til þess að fjárfesta hér á landi,“ segir Birgir í samtali við Markaðinn.


Beðið eftir BlueBay


BlueBay, sem hóf innreið sína á íslenska skuldabréfamarkaðinn árið 2015, seldi á föstudag ríkisskuldabréf fyrir liðlega 11 milljarða króna. Seðlabankinn seldi gjaldeyri fyrir hátt í 70 milljónir evra vegna skuldabréfaviðskiptanna til þess að sporna gegn því að þau myndu veikja gengið. Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa lækkaði mikið í kjölfarið – hún gekk að hluta til baka á mánudag – vegna væntinga markaðarins að Seðlabanki Íslands muni í kjölfarið hefja magnbundna íhlutun af fullum kraft, nú þegar BlueBay hefur losað um öll ríkisskuldabéf sín.

Seðlabankinn boðaði kaup á ríkisskuldabréfum, svokallaða magnbundna íhlutun, fyrir allt að 150 milljarða í mars, en þannig vildi bankinn tryggja að fjármagnsþörf ríkisins myndi ekki þrýsta upp ávöxtunarkröfunni. Frá þeim tíma hefur bankinn hins vegar aðeins keypt ríkisbréf fyrir um 900 milljónir. Talið er að Seðlabankinn hafi ákveðið að vera í biðstöðu þangað til þrýstingur á markaði vegna sölu BlueBay minnkaði.

Eign erlendra aðila í ríkisverðbréfum í krónum nam um 72 milljörðum króna í júlí en eftir að Bluebay losaði um öll sín bréf má áætla að eignarhlutur þeirra sé nú vel undir 30 milljörðum króna. Það er bandaríski fjárfestingasjóðurinn Eaton Vance sem heldur á þeim bréfum að langstærstum hluta en þrír sjóðir í stýring hans, samkvæmt eignayfirliti í lok júlí, eiga ríkisskuldabréf – RB25, RB28 og RB31 – fyrir tæplega 19 milljarða króna að nafnvirði.


Óvissan með flæðið upp á við


Seðlabankinn boðaði þann 9. september síðastliðinn að hann myndi hefja reglulega sölu á gjaldeyri til ársloka í því skyni að auka dýpt markaðarins og koma á meiri stöðugleika. Hefur bankinn selt gjaldeyri fyrir jafnvirði 70 milljarða króna frá því um miðjan ágúst, einkum vegna útflæðis erlendra sjóða úr ríkisskuldabréfum, sem jafngildir yfir helming af allri gjaldeyrisveltu markaðarins.

Óvissan með erlenda flæðið er því að öllu leyti upp á við eins og staðan er núna. Það er mikil breyting frá því sem var fyrr á þessu ári sem dæmi

„Þessar aðgerðir,“ útskýrir Hrafn, „hafa dregið úr krónumagni í kerfinu og því verkað gegn fyrri aðgerðum Seðlabankans með það að markmiði að auka laust fé í umferð. Það endurspeglaðist að einhverju leyti í frekar dræmri þátttöku í síðasta ríkisvíxlaútboði. Að því sögðu finnst mér líklegt að Seðlabankinn skoði gaumgæfilega að hefja magnbundna íhlutun á næstunni eða að minnka framboð á vikuinnlánum. Báðar þessar aðgerðir geta aukið laust fé í umferð, stutt við útgáfu ríkisbréfa og hjálpað til við miðlun peningastefnunnar og er því rökrétt næsta skref.“

Hrafn segir einnig mikilvægt í þessum efnum, sem Arion banki vinni meðal annars markvisst að um þessar mundir, að auka útgáfu fyrirtækjabréfa. „Því skiptir miðlun peningastefnunnar upp vaxtarófið máli til að efla þátttöku fyrirtækja á skuldabréfamarkaði.“

Þá bendir Hrafn á að fyrir erlenda fjárfesta skipti efnahagshorfurnar ekki síður máli og eins væntingar um gengisþróun krónunnar. „Viðsnúningur í ferðaþjónustu getur á næstu árum leitt af sér gengisstyrkingu og einnig getur innleiðing Íslands í MSCI hlutabréfavísitöluna aukið innflæði og stutt við krónuna. Það kæmi því ekki á óvart að við sæjum aukið innflæði bæði í skuldabréf og hlutabréf á næstu misserum,“ segir hann.

Birgir er á sama máli og nefnir að langtíma ríkisskuldabréf séu komin á sambærilega verðlagningu í dag og nýmarkaðsríki með svipað lánshæfismat og Ísland

„Það ætti einnig að vera kostur fyrir nýja erlenda fjárfesta hversu lítil þátttakan er orðin af þessum tiltekna hópi á innlendum skuldabréfamarkaði. Þannig kæmi það ekki á óvart,“ útskýrir Birgir, „ef að kvikir erlendir aðilar væru að horfa til tækifæra hér á landi í dag. Óvissan með erlenda flæðið er því að öllu leyti upp á við eins og staðan er núna. Það er mikil breyting frá því sem var fyrr á þessu ári sem dæmi.“