Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands telur rétt að sett verði á stofn sérstök og tímabundin lánafyrirgreiðsla í formi veðlána þar sem gert verði ráð fyrir að hæfi veða verði tímabundið útvíkkað. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá nefndinni sem birt var á vef bankans í morgun.

„Lausafjárstaða fjármálafyrirtækja er traust en vegna óvissu um framvinduna telur nefndin mikilvægt að Seðlabankinn hafi til reiðu slíkt úrræði þar sem útvíkkað verði tímabundið hæfi veða,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar kemur auk þess fram að bankinn muni sjá um að framkvæma úrræðið innan þess ramma sem nefndin hefur samþykkt.

Í stuttri yfirlýsingu sem peningastefnunefnd hefur jafnframt gefið út er tekið undir með fjármálastöðugleikanefnd í þessum efnum.

Eiginfjáraukar haldast óbreyttir

Fjármálstöðugleikanefnd hefur auk þess lokið endurmati á eiginfjáraukum bankanna vegna kerfisáhættu og kerfislegs mikilvægis. Niðurstaða nefndarinnar er sú að báðum aukunum verði haldið óbreyttum.

Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu verði þannig áfram þrjú prósent vegna innlendra áhættuskuldbindinga bankanna á meðan eiginfjárauki vegna kerfislegs mikilvægis verði áfram tvö prósent á allar áhættuskuldbindingar.

Nefndin segir endurmatið staðfesta kerfislegt mikilvægi Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.

Þá ítrekar fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans fyrri tilmæli sín til fjármálafyrirtækja að taka tillit til þeirrar miklu óvissu sem uppi er í þjóðarbúskapnum við ákvörðun um útgreiðslu arðs og endurkaup á eigin hlutabréfum á komandi misserum.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Nefndin segist líkt og áður vera reiðubúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til þess að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi.

„Íslenska fjármálakerfið stendur traustum fótum og eiginfjárstaða bankanna er sterk. Nýlegar aðgerðir Seðlabankans, um afléttingu sveiflujöfnunaraukans og breytingar á bindiskyldu, hafa aukið svigrúm þeirra til að styðja við heimili og fyrirtæki í gegnum það áfall sem Covid-19 faraldurinn mun hafa í för með sér.

Sveigjanleiki núgildandi eiginfjárauka veitir jafnframt rými til að bregðast við aðstæðum sem nú eru uppi í efnahagslífinu,“ segir jafnframt í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar.