UTmessan, einn helsti vettvangur fyrirlestra, umræðna, skoðanaskipta og nýjunga í tækni- og tölvugeiranum, verður haldin í tólfta sinn á Grand hóteli miðvikudaginn 25. maí. Í þetta sinn er UTmessan sjálf ásamt sýningu einungis opin skráðum ráðstefnugestum og er hægt að skrá sig á UTmessuna til og með 20. maí.

Tilgangur UTmessunnar er sem fyrr að ná saman fagfólki í tölvu- og tæknigeiranum til faglegrar umræðu og skoðanaskipta. Þar mæta háskólarnir ásamt innlendum sem erlendum tölvu- og tæknifyrirtækjum á glæsilegu sýningarsvæði UTmessunnar. Á sama tíma fer einnig fram Netöryggiskeppni ungmenna, Gagnaglíman en keppnin er forkeppni Íslands fyrir Netöryggiskeppni Evrópu (ECSC).

Á ráðstefnu UTmessunnar taka rúmlega 50 aðilar til máls á níu þemalínum sem eru sérsniðnar að þeim sem vinna við eða hafa áhuga á tækni- og tölvumálum. Fjöldi erlendra og íslenskra fyrirlesara munu stíga á stokk og er efni fyrirlestranna afar fjölbreytt en komið verður meðal annars inn á nýsköpun, gögn, gervigreind, rekstur, öryggi, stafræna þróun, samvinnu og framtíðina. Í lok ráðstefnunnar mun forseti Íslands veita Upplýsingatækniverðlaun Ský.

UTmessu dagar verða á þriðjudaginn og þar gefst öllum tækifæri til að taka þátt í fróðlegum viðburði á vegum Háskóla Íslands í Perlunni. Frítt er inn á UTmessu dagana en þarf að skrá sig fyrir fram í gegnum utmessan.is þar sem húsrúm er takmarkað.

Tæknikrossgáta UTmessunnar er opin öllum og tilvalið að láta reyna á hve mikill tölvunörd býr í þér.

UT-svar spurningakeppni UT hlaðvarps Ský brá einnig á leik og er með létta spurningakeppni milli fyrirtækja sem tilnefnd eru til UT-verðlauna Ský í hlaðvarpsþáttum sem eru að rúlla út fram að UTmessu.

Eins og flestir vita nú er skortur á tölvumenntuðu fólki hér á landi sem annars staðar í heiminum og er UTmessan einn liður í að vekja áhuga ungs fólks á að velja sér tölvu- og tæknistörf í framtíðinni. Á UTmessunni sést vel fjölbreytileiki upplýsingatækninnar og ekki síður að þessar greinar hafa breitt og fjölbreytt starfssvið sem hentar konum jafnt sem körlum.

Heildardagskrá UTmessunnar er að finna á þessari vefslóð: www.utmessan.is - https://utmessan.is/heildardagskra.html