UTmessan verður haldin í Hörpu föstudaginn 3. febrúar. Þar verða afhent Upplýsingatækniverðlaun Ský, heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Einnig verða afhent verðlaun í undirflokkum.
Á laugardaginn verður síðan opið hús allan daginn fyrir almenning. Meðal þess sem ber fyrir augu verður elsti tölvubúnaður á Íslandi, kannski í síðasta sinn.
Ekki er gefið upp hver eru tilnefnd til aðalverðlaunanna, Upplýsingatækniverðlauna Ský. Þar var hægt að tilnefna einstakling, fyrirtæki eða verkefni sem hefur skarað fram úr á sviði upplýsingatækni, skapað verðmæti og auðgað líf Íslendinga með hagnýtingu á upplýsingatækni. Áhersla er lögð á að framlagið hafi þegar sannað sig með afgerandi hætti. Það er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem afhendir verðlaunin í Eldborgarsal Hörpu.
Auk aðalverðlaunanna verða veitt verðlaun í fjórum undirflokkum.
Í flokknum UT-fyrirtækið 2022 eru tilnefnd fyrirtækin AwareGO, sem sérhæfir sig í mannlega þættinum þegar kemur að netöryggi, Gangverk, sem þróar lausnir fyrir fyrirtæki sem starfa á alþjóðamarkaði, og Kolibri, sem talið er standa framarlega þegar kemur að fyrirtækjamenningu og fjölbreytileika.
Í flokknum UT-Sprotinn 2022, sem er fyrir fyrirtæki sem hafa verið starfandi síðastliðin 1–6 ár og bjóða lausnir sem vakið hafa athygli, eru tilnefnd fyrirtækin indó sparisjóður, sem býður bankaþjónustu með lítilli yfirbyggingu, Smitten, sem er vinsælasta stefnumótaappið á Íslandi, og Snerpa Power, sem býður lausn fyrir stórnotendur (iðnað) á raforkumarkaði sem leiðir til bættrar nýtingar auðlinda og aukinnar samkeppnishæfni.
Í flokknum UT-Stafræna þjónustan 2022, sem ætlaður er lausnum sem skara fram úr og einfalda líf fólks, eru tilnefnd fyrirtækin CERT-IS, sem hefur tekið stór skref í að stuðla að bættu netöryggi og viðbragðsgetu innan íslenskrar netlögsögu, umferdin.is, sem er nýr vefur Vegagerðarinnar, gagnvirkur og á að auðvelda aðgengi vegfarenda að upplýsingum um færð á vegum, og Landspítalaapp fyrir sjúklinga, sem ætlað er að gefa sjúklingum betri innsýn í meðferðina, bæta upplifun þeirra og gera þeim kleift að taka virkan þátt í meðferð sinni.
Í flokknum UT-Fjölbreytileikafyrirmynd 2022, sem ætlað er að vekja athygli á því sem vel er gert og styðja fjölbreytileika og gott fordæmi, eru tilnefnd Ada Konur á Instagram, sem hvetur ungar konur til að sækja nám í tölvunarfræði, Guðrún Valdís Jónsdóttir, upplýsingaöryggisstjóri Syndis, sem er leiðandi sérfræðingur í öryggis- og tæknigeiranum hér á landi og erlendis, og Inga Björk Margrétar Björnsdóttir, sem hefur verið leiðandi í umræðu um stafræn aðgengismál og stafrænar hindranir sem fylgt geta þeirri öru þróun sem verið hefur í tæknigeiranum síðustu ár.
Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ský og UTmessunnar, segir ánægjulegt að UTmessan verði nú aftur opin fyrir almenningi eftir tveggja ára hlé. „Við erum mjög spennt að geta leyft fólki að koma og sjá það sem er að gerast í tæknigeiranum á Íslandi núna á laugardaginn.“
Hún segir spennuna skína úr andlitum gesta og þá sérstaklega ungu kynslóðarinnar við að komast í færi við alls kyns tól og tæki ásamt því að prófa sýndarveruleika og leika með lítil vélmenni. „Vísinda-Villi verður með þrjár sýningar í Eldborg þar sem hann gerir tilraunir, auk þess sem hægt er að fylgjast með Hönnunarkeppni HÍ. Boðið verður upp á að prófa rafíþróttir og foreldrar og börn geta fengið fræðslu um hvað rafíþróttir eru í raun og veru,“ segir Arnheiður.
Hún segir rúsínuna í pylsuendanum svo vera sýningu á elsta tölvubúnaði landsins, en sett hefur verið upp stórsýning á fjölda tækja, svo sem gataspjaldavélum, fyrsta snertibankanum og öðrum risatölvum og svo gæti farið að þessi tæki verði ekki aftur til sýnis þar sem engin söfn hafi áhuga á að taka við þessum dýrmæta og sögulega búnaði.
Um 50 tæknifyrirtæki verða með bása í Hörpu. Þar verða alls kyns þrautir og leikir sem draga fram hversu fjölbreyttur tæknigeirinn er, en eitt aðalmarkmið opna tæknidagsins er að sögn Arnheiðar að vekja áhuga fólks og hvetja unga sem aldna til að velja sér hann sem framtíðarvettvang, en viðvarandi skortur er á tæknifólki um allan heim.
Tæknidagur UTmessunnar, sem opinn er öllum almenningi, er laugardaginn 4. febrúar klukkan 10–17 í Hörpu. Frítt er inn.
