Útlit er fyrir að hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) Eimskips á fyrsta ársfjórðungi verði á bilinu 13,9 til 14,9 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar var sá hagnaður 9,3 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fjárhæðin byggir á stjórnendauppgjöri fyrir janúar og febrúar ásamt áætlun fyrir mars.

Að teknu tilliti til væntra afskrifta má gera ráð fyrir að hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á fjórðungnum verði á bilinu 2,2 til 3,2 milljónir evra. Á sama tíma fyrir ári var sá liður neikvæður um 1,6 milljónir evra.

„Reksturinn gekk almennt ágætlega á fjórðungnum þrátt fyrir krefjandi aðstæður á þeim mörkuðum sem félagið starfar á og hagræðingaraðgerðir síðasta árs halda áfram að skila sér.

Þrátt fyrir að framangreindar upplýsingar sýni umtalsverða hækkun á rauntölum úr rekstri milli tímabila þá er hún innan marka afkomuspár ársins 2021 sem er á bilinu 68 til 77 milljónir evra. Þá var EBITDA á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs undir væntingum eins og kynnt hefur verið,“ segir í tilkynningunni.

Vinna við uppgjör fyrsta ársfjórðung stendur yfir og getur afkoman tekið breytingum þar til henni er lokið.

Eimskip birtir uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2021 eftir lokun markaða þriðjudaginn 11. maí.