Drög að uppgjöri Arion banka fyrir fjórða ársfjórðung 2020 liggja nú fyrir og samkvæmt þeim er afkoma fjórðungsins um 6 milljarðar króna og reiknuð arðsemi á ársgrundvelli ríflega 12 prósent.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum til Kauphallarinnar en þar segir að afkoman sé umtalsvert umfram fyrirliggjandi spár greinenda og hærri en á undangengnum ársfjórðungum.

Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam hagnaður bankans um 6,7 milljörðum króna eftir skatta og því er útlit fyrir að hagnaður Arion á árinu 2020 verði tæplega 13 milljarðar króna.

Gengi bréfa félagsins, sem höfðu lækkað nokkuð í viðskiptum í Kauphöllinni það sem af var degi, eru nú upp um rúmlega tvö prósent í kjölfar tilkynningar bankans í meira en 500 milljóna króna veltu. Hlutabréfaverðið stendur í 98,1 krónum á hlut en markaðsvirði Arion er nú 170 milljarðar.

Fram kemur í tilkynningu bankans að afkoma af áframhaldandi starfsemi hafi numið um 8 milljörðum króna á síðasta ársfjórðungi og þróast heilt yfir með mjög jákvæðum hætti, hvort sem hún er borin saman við þriðja ársfjórðung þessa árs eða fjórða ársfjórðung 2019.

„Fjármunatekjur og tekjur af fjárfestingareignum eru sérlega góðar á fjórðungnum eða sem nemur samtals um 2,8 milljörðum króna og hreinar niðurfærslur eru litlar sem engar,“ segir í tilkynningunni.

Á móti kemur að neikvæð áhrif af eignum til sölu nema ríflega 2 milljörðum króna og vegur þar þyngst niðurfærsla á eignum í Stakksbergi ehf. en það félag heldur utan um rekstur bankans í kísilmálmverksmiðjunni United Silicon.

Ársuppgjör Arion, sem er enn í vinnslu og endurskoðun ekki lokið, verður birt 10. febrúar næstkomandi.

Þá segir í tilkynningu Arion banka að enn sé óvissa í starfsumhverfi bankans og þá fyrst og fremst tengd þróun COVID-19 faraldursins og þeim áhrifum sem faraldurinn kann að hafa á íslenskt efnahagslíf.

„Sú óvissa snýr fyrst og fremst að þróun eignasafns bankans svo sem útlánasafns og verðbréfastöðu. Fjárhagslegur styrkur Arion banka er varðar eigið fé og lausafé er áfram mjög mikill sem auðveldar bankanum að takast á við þessar óvenjulegu aðstæður.“