Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist á hverju ári frá aldamótum nema í þrjú ár, 2008-2010. Mjög líklegt er að kaupmáttur ráðstöfunartekna minnki í ár og á næsta ári, fyrst og fremst vegna aukins atvinnuleysis og styttri vinnutíma. Þetta kemur meðal annars fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Þá má gera ráð fyrir minni eignatekjum og einnig minni rekstarafgangi frá eigin rekstri. Yrði það í fyrsta sinn frá árinu 2013 sem ráðstöfunartekjur á mann skreppi saman. Kaupmáttur launavísitölu mun hins vegar aukast, haldist verðbólga á svipuðum stað og er í dag. Þróun ráðstöfunartekna verður því mjög mismunandi milli þeirra sem halda starfi áfram við sömu aðstæður og áður og hinna sem lenda í atvinnuleysi.

Ráðstöfunartekjur hækkað um 7 prósent frá aldamótum

Ráðstöfunartekjurnar í fyrra hækkuðu ívið minna en næstu ára á undan. Þannig hækkuðu þær um 9,3% milli 2016 og 2017 og um 7,7% milli 2017 og 2018. Ráðstöfunartekjur hafa að meðaltali hækkað um 8,4% á ári frá aldamótum. Ráðstöfunartekjur á mann hafa að jafnaði hækkað um 7% á ári frá aldamótum.

Kaupmáttur jókst 17 af síðustu 20 árum

Greining Landsbankans tekur saman aukninguna frá aldamótum, en kaupmátturinn hefur aukist um 2,3% á ári að meðaltali eða um alls 53% frá 1999 til 2019, þar sem var aukning á hverju ári utan áranna 2008 til 2010. Á árinu 2008 var kaupmáttur ráðstöfunartekna óbreyttur og hann féll svo um 14% og 12% árin þar á eftir. Á árunum fyrir hrun þá hækkuðu ráðstöfunartekjur mun meira en launavísitalan, en á árunum 2011 til 2016 þróuðust hvort um sig með svipuðum hætti.

Launavísitalan hækkað ívið meira

Sé litið til baka má sjá að ráðstöfunartekjur hækkuðu mun meira en launavísitala á árunum fyrir hrun. Þá var hagkerfið í mikilli uppsveiflu, vinnutími langur og nýir tekjumöguleikar eins og fjármagnstekjur komu til sögunnar. Þá léku skattalækkanir líka sitt hlutverk þannig að ráðstöfunartekjur hækkuðu mikið.

Við hrunið breyttist myndin skyndilega. Atvinnuleysi jókst mikið, fjármagnstekjur hurfu, skattar hækkuðu þannig að ráðstöfunartekjur lækkuðu mikið. Launavísitalan hélt hins vegar áfram á sinni siglingu eins og hún gerir jafnan og gerir enn í dag. Frá árinu 2011 til 2016 þróuðust launavísitalan og ráðstöfunartekjur á mann með svipuðum hætti. Síðan hefur launavísitalan hækkað ívið meira, en ráðstöfunartekjur án fjöldaviðmiðunar hafa þó hækkað meira en launavísitalan.