Verðbréfaeign erlendra aðila í krónum hefur minnkað verulega frá upphafi faraldurs fyrir tæpum tveimur árum síðan og er með minnsta móti um þessar mundir. Seldu þeir fyrst og fremst ríkisbréf árið 2020 en hlutabréf á seinasta ári. Líkur á miklu viðbótarútflæði af þessum sökum eru því litlar og er fremur útlit fyrir að verðbréfaeign þeirra sæki í sig veðrið á nýjan leik. Þetta kemur fram í Korni Íslandsbanka.

Samkvæmt nýjustu gögnum frá Lánamálum ríkisins nam eign erlendra aðila í ríkisbréfum alls ríflega 40 milljörðum króna í nóvemberlok. Þeir áttu því innan við 4 prósent af útgefnum ríkisskuldabréfum í krónum á þeim tímapunkti.

„Verðbréfaeign erlendra aðila í íslenskum krónum er með minnsta móti um þessar mundir eftir að hafa minnkað talsvert frá upphafi faraldurs. Á sama tíma hefur íslenskum hlutabréfamarkaði haldið áfram að vaxa fiskur um hrygg og ávöxtun á skuldabréfum í krónum er að jafnaði talsvert meiri en gerist og gengur meðal OECD-ríkja.

Hættan á frekara útflæði vegna sölu á slíkum eignum er að sama skapi fremur takmörkuð og líkurnar liggja að okkar mati frekar á þann veg að erlendir aðilar muni á komandi misserum auka við verðbréfaeignir sínar hér á landi.

Fer vel á því enda eru innlendir aðilar, sér í lagi lífeyrissjóðirnir, að fjárfesta í erlendum verðbréfum fyrir verulegar fjárhæðir á ári hverju og mun það verða raunin áfram á komandi árum enda er innlendur sparnaður enn mikill,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Slíkt gagnkvæmt flæði verðbréfafjárfestingar landa á milli ætti öðru jöfnu að verða öllum aðilum heilladrjúgt, sér í lagi þegar það fer saman við þokkalegt jafnvægi á viðskiptajöfnuði eins og raunin verður væntanlega á næstunni, segir í greiningunni.

„Aukin aðkoma erlendra aðila hér á landi gerir fjárfestaflóruna hér á landi fjölbreyttari og stuðlar að virkum skoðanaskiptum á markaði á meðan fjárfesting innlendra aðila út fyrir landsteinana stuðlar að áhættudreifingu. Fyrir lítið, opið hagkerfi með fremur smáa fjármálamarkaði en mikinn uppsafnaðan langtímasparnað er það mikilvægt,“ segir Íslandsbanki.