Útlit er fyrir styrkingu krónu á komandi misserum og líklega mun Seðlabankinn safna á ný í gjaldeyrisforða sinn þegar þar að kemur. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.

„Stærsta loðnuvertíð í tæpa tvo áratugi er framundan og horfur eru á allhraðri fjölgun ferðamanna eftir því sem líður á veturinn. Gengi krónu mun þá að mati okkar styrkjast á endanum og gæti Seðlabankinn á næsta ári staðið aftur í þeim sporum, líkt og var um miðjan síðasta áratug, að kaupa umtalsverðar fjárhæðir á gjaldeyrismarkaði til að halda aftur af styrkingunni og bæta í hreinan gjaldeyrisforða sinn á nýjan leik. Styrking krónu mun þannig á endanum toga niður verðbólguna án þess að Seðlabankinn þurfi að handstýra genginu í þá átt,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Í nýlegri þjóðhagsspá Íslandsbanka er því spáð að gengi krónu verði u.þ.b. tíu prósent sterkara árið 2023 en það var að jafnaði í fyrra. Það jafngildir því að gengi evru gagnvart krónu verði í námunda við 140 og gengi Bandaríkjadollar ríflega 120.

Höfundur greiningarinnar slær þó varnegla og segir að þótt óþarfi ætti að vera að ítreka þá alkunnu visku að illmögulegt sé að spá fyrir um gengi gjaldmiðla af nákvæmni sé þó erfitt að líta fram hjá því að sterk erlend staða þjóðarbúsins, bjartar horfur um viðskiptajöfnuð, vaxandi vaxtamunur og hófleg eign erlendra aðila í íslenskum verðbréfum beri allt að sama brunni um að styrking krónu sé í kortunum. „Spurningin er frekar hvenær, hversu mikil og að hversu miklum krafti Seðlabankinn bregðast við með gjaldeyrisinngripum og forðasöfnun.“

Stærsta loðnuvertíð í tæpa tvo áratugi er framundan.
Fréttablaðið/Óskar Pétur

Eftir töluverða styrkingu krónu á fyrri helmingi ársins gaf krónan lítillega eftir á nýjan leik á þriðja ársfjórðungi. Íslandsbanki rekur þróunina að stórum hluta til þriggja áhrifaþátta.

„Eftir umtalsvert innflæði tengt verðbréfakaupum erlendra aðila snemmsumars hefur slíkt flæði verið af skornum skammti síðan.

Ris Delta-bylgju faraldursins undir lok júlímánaðar og hertar landamæraaðgerðir í kjölfarið slógu á væntingar um gjaldeyrisinnflæði tengt ferðaþjónustunni.

Umtalsverður halli hefur verið á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd síðustu mánuði, ekki síst vegna þess að innlend eftirspurn hefur tekið hressilega við sér,“ segir í greiningunni.

Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri. Seðlabankinn hefur undanfarna fjórðunga stigið ölduna í því að draga úr skammtímasveiflum á gjaldeyrismarkaði með gjaldeyrisinngripum sínum.

Seðlabankinn hefur undanfarna fjórðunga stigið ölduna í því að draga úr skammtímasveiflum á gjaldeyrismarkaði með gjaldeyrisinngripum sínum.

„Á síðasta ári seldi bankinn til að mynda 830 milljónir evra inn á gjaldeyrismarkað umfram kaup. Langmest var salan á haustdögum þegar þrýstingur á krónuna var hvað mestur og hóf hann þá reglubundna sölu á evrum inn á markað í því skyni að vega gegn vöntun á gjaldeyristekjum af ferðaþjónustu og auka dýpt markaðar auk þess að halda áfram óreglulegum inngripum sínum. Má leiða að því líkur að veiking krónu fyrir ári síðan hefði orðið talsvert skarpari en raunin varð ef ekki hefði verið fyrir þessi inngrip.

Með betra jafnvægi á gjaldeyrismarkaði á yfirstandandi ári dró úr þörf fyrir umfangsmikil inngrip Seðlabankans. Hætti hann reglulegri evrusölu í lok apríl en hefur eftir það gripið inn í markaðinn frá báðum hliðum í því skyni að minnka skammtímasveiflurnar. Til að mynda keypti Seðlabankinn 124 milljónir evra á markaði í júnímánuði þegar gjaldeyrisinnflæði var tímabundið allsterkt og hefur síðan bæði keypt og selt evrur eftir því hvernig skammtímavindar hafa blásið á markaði,“ segir Íslandsbanki.

Fram kemur í greiningunni að gjaldeyrismarkaður virðist hafa náð tímabundnu jafnvægi í grennd við 150 krónur á hverja evru síðustu vikur. „Lítur út fyrir að Seðlabankanum hugnist það gengi nokkuð vel þrátt fyrir umtalsverðan verðbólguþrýsting þessa dagana. Lítur hann þar væntanlega til þess að styrking krónu á næstunni yrði ferðaþjónustunni fjötur um fót á komandi vetri og gæti þar með spillt fyrir þeim efnahagsbata sem er í kortunum á næsta ári. Við teljum því einsýnt að bankinn muni áfram halda sig við að draga úr sveiflum til beggja átta í gengi krónu þar til gjaldeyrisinnflæði vegna útflutnings fer að braggast fyrir alvöru.“