Útlán Íslandsbanka munu lækka frá og með 11. október um 0,15-0,25 prósentustig. Fastir vextir verðtryggðra húsnæðislána lækka um 0,25 prósentustig en breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána munu lækka um 0,15 prósentustig. Þá munu bílalán og bílasamningar lækka um 0,25 prósentustig og breytilegir innlánsvextir lækka um 0-0,25 prósentustig, segir í tilkynningu.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað við upphaf mánaðar að lækka vexti bankans um 0,25 prósentustig og eru meginvextir bankans nú 3,25 prósent. Þetta var í fjórða sinn á þessu ári sem nefndin ákveður að lækka vextina en þeir voru 4,5 prósent í byrjun árs.

Bjartari verðbólguhorfur

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á opnum fundi við það tilefni að verðbólguhorfur væru bjartari en hins vegar lægi ekki fyrir ný verðbólguspá hjá bankanum.

„Það bendir allt til þess að hún hjaðni hraðar en síðasta spá gerði ráð fyrir. Það eru ýmsir þættir eins og hærra gengi og almennt séð ber minna á innlendum kostnaðarþrýstingi heldur en við bjuggumst við,“ sagði hann og ítrekaði að peningastefnan myndi ráðast af því hvernig gögnin þróast.