Icelandair hefur markað flotastefnu fyrirtækisins til næstu ára. Greiningarvinnan leiddi í ljós að núverandi floti hentar félaginu vel. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, segir ljóst að Icelandair muni bæta við fleiri Boeing Max vélum á næstu árum.

En á seinni hluta þessa árs muni félagið standa frammi fyrir tveimur valkostum. Annars vegar að halda áfram að styrkja og endurnýja Boeing flota félagsins, eða skipta alfarið um flugvélaframleiðanda og skipta út öllum Boeing vélunum fyrir Airbus vélar.

Ef það verður raunin þá munu flotaskiptin hefjast á árunum 2026 og 2027. „Þetta mun væntanlega þýða samkeppni á milli framleiðenda og það er okkur í hag. Þess vegna er frábært að vera með tvo álitlega kosti á borðinu fyrir okkar framtíðarflota," segir Bogi

„En við erum bara að undirbúa þessa risastóru ákvörðun. Niðurstöðu er að vænta á næstu 12 til 18 mánuðum"

Bogi segir mikla ánægju með Boeing hjá Icelandair. "Við pöntuðum Boeing Max vélarnar 2012 og þá vorum við í viðræðum bæði við Boeing og Airbus. Í hreinskilni sagt þá var mjög mjótt á mununum þarna 2012. En við ákváðum á endanum að panta Max vélarnar. Þær hafa reynst mjög vel þrátt fyrir hökt í upphafi. Í sumar verðum við til að mynda með 14 Max vélar."

Nánar er rætt við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair í Markaðinum á Hringbraut sem er á dagskrá öll miðvikudagskvöld. Þar ræðir hann um flota félagsins, rekstrarumhverfi og þær áskoranir sem blasa við flugfélögum um allan heim.