„Við hittumst í menntaskóla og fórum að vinna þar saman að verkefni á námskeiði sem var haldið fyrir unga frumkvöðla,“ segir Calle Rosengren, annar stofnanda fyrirtækisins Farsking í Svíþjóð en síðustu tvö ár hafa þau, hann og Amanda Larsson, hinn stofnandinn fengið verðlaun sem besta granólað tvö ár í röð í Svíþjóð í verðlaununum Arets basta produkt sem veitt eru árlega í nokkrum flokkum.
Calle segir að markmið þeirra eftir að hafa farið á námskeiðið hafi verið að stofna fyrirtæki og vera með einhverja vöru til að selja út það skólaár.
„Þá var hugmyndin svipuð því sem hún er núna – heilsusamlegt granóla fyrir börn – en þá var meiri áhersla lögð á börn en er í dag. Við áttum frábært ár þá og ákváðum í kjölfarið að halda áfram. Þar var árið 2014 og svo þegar við útskrifuðumst árið 2016 fórum við að vinna fyrir fyrirtækið okkar í fullu starfi,“ segir Calle.
Hann segir að þau séu enn lítið og ungt fyrirtæki á markaði en að þau séu mjög spennt að varan þeirra sé komin á markað utan Svíþjóðar en Ísland er fyrsta landið sem tekur það í sölu. Spurður hvort hann hafi ráð fyrir unga frumkvöðla segir Calle að úthald sé líklega það mikilvægasta til að hafa í slíkri vinnu.
„Í kringum frumkvöðulsstarf er í dag gefin rómantískur blær með því að gefa til kynna fimmtán tíma vinnudag en að á sama tíma nái fólk að sinna fjölskyldu og vinum, eða í raun vera einhvers konar ofurmanneskja. En nær allt sem kemur að því að stofna fyrirtæki tekur alltaf miklu lengri tíma en þú heldur. Að vinna sig í gegnum það góða og það slæma en að hafa samt úthald í að halda áfram er eitthvað sem við teljum mikilvægara en nokkuð annað. En fyrir utan það, þá bara snýst það um að taka fyrsta skrefið,“ segir Calle.
Hann segir að það skipti ekki máli að fólk hafi sérþekkingu sem það telji sig þurfa hafa því maður neyðist til að læra allt á leiðinni.
„Of hafðu frábæran meðstofnanda, það gerir ferðalagið í það minnsta skemmtilegt,“ segir hann.

Á ekki að vera leiðinlegt að borða hollt
Spurður hvað sé sérstakt við vöruna þeirra og hvort hún sé fyrir einhvern ákveðinn hóp segir Calle að þau séu „lífstílsmerki“ með heilbrigðar vörur en þau reyni að nota skapandi leiðir til að koma sér á framfæri.
„Vörurnar okkar eru fyrir alla því við eigum öll skilið að byrja alla morgna vel. En okkar markaðsstarfi er að miklu leyti beint að ungu fólki, sérstaklega táningum og til ungmenna. Þegar við byrjuðum í Svíþjóð, sjálf sem unglingar, leið okkur eins og það vantaði eitthvað upp á. Það voru allir að tala um að borða heilbrigðan mat en það var allt svo leiðinlegt í kringum það,“ segir Calle.
Hann segir að með því að þróa sitt eigið granóla hafi þau viljað hafa áhrif á það hvernig fólk upplifir „heilsusamlega vöru“.
„Það á að vera náttúrulegt og partur af lífsstílnum, og það ætti alls ekki að vera leiðinlegt,“ segir Calle og bætir við að þau vonist til þess að geta haft áhrif á matvælaiðnaðinn með því að sýna fram á að hollur matur þurfi ekki að vera leiðinlegur.
„Þetta snýst ekki um að segja fólki að það þurfi að borða hollari mat, þetta snýst um að gefa þeim kost á að borða mat sem þeim langar í og á sama tíma taka ábyrgð á því sem fyrirtæki að maturinn sé góður fyrir þau.“
Calle segir að granólað sé í raun búið til á svipaðan hátt og annað granóla. Það er hitað í ofni og er að mestu hafrar en svo sé bætt við fræjum, kryddum, berjum og ávöxtum.
„Það sem skilur granóla frá múslí er að granóla þyrpist saman. Venjulega er notaður sykur, döðlur eða hunang til að búa til þessa klasa en við notum náttúrlegar trefjar frá kaffifíflarót sem gefur granóla auka „kröns“,“ segir Calle.
Góðan daginn Ísland! 👋 Idag är en extra stolt dag för oss - Färsking finns nu på Island! Alla våra tre goda granolor går...
Posted by Färsking on Wednesday, 13 January 2021