Erna er gestur Ólafs Arnarsonar í nýjasta þætti Markaðarins sem frumsýndur verður á Hringbraut í kvöld kl. 19.

Hún lýsir áhyggjum sínum af því hve verðbólgan er á breiðum grunni, milli 60 og 70 prósent undirliða vísitölunnar séu að hækka um meira en sex prósent. Þetta sé óþægilegt á að horfa þegar tekið sé tillit til þess að verðbólgumarkmið Seðlabankans sé 2,5 prósent.

„Ég hugsa að ég hafi ekki verið eini greiningaraðilinn sem svelgdist á kaffibollanum á mánudagsmorgun þegar tölurnar komu. Spár greiningaraðila voru á þröngu bili, gert var ráð fyrir að verðbólgan yrði 9,6 prósent en hún varð 10,2 prósent, fór yfir 10 prósenta múrinn sem maður var að vona, þó ekki væri nema bara vegna sálartetursins, að hún færi ekki yfir.“

Erna segir tvo undirliði vísitölunnar hafa komið sérstaklega á óvart. Áhrif útsöluloka hafi verið miklu meiri en búist hafði verið við, segja megi að einhverju leyti að útsölurnar hafi gengið til baka og rúmlega það.

Fjármál hins opinbera eru stórt vandamál, segir Erna. Ríki og sveitarfélög séu rekin með miklum halla í blússandi hagvexti og það gangi ekki til lengdar án afleiðinga, sem birtist í verðbólgu og lækkandi gengi krónunnar. Vandi hins opinbera sé ekki tekjuvandi heldur séu það útgjöldin sem valda vandanum.

Mikilvægt sé nú að hið opinbera sýni aðhald í sínum rekstri og gangi á undan með góðu fordæmi. Erna telur að gjaldskrárhækkanir ríkisins um áramótin þegar verðbólgunni var velt út í gjaldskrár hins opinbera hafi mögulega sent vafasöm skilaboð til annarra í landinu og fyrirtæki telji sig ekki þurfa að sýna varkárni í verðhækkunum þegar ríkið gerir það ekki sjálft.

Heiðrún Erika Guðmundsdóttir, deildarstjóri vísitöludeildar Hagstofunnar, segir mikla áskorun hafa falist í gerbreyttum neysluháttum þjóðarinnar á einni nóttu í Covid.

Í fyrri hluta þáttarins ræðir Heiðrún Erika Guðmundsdóttir, deildarstjóri vísitöludeildar Hagstofunnar, um vísitölu neysluverðs við Ólaf Arnarson og skýrir meðal annars út ýmis atriði varðandi samsetningu hennar og þann neyslugrunn sem lagður er til grundvallar.

Meðal annars ræðir hún um þá áskorun sem fólst í því þegar neyslumynstur þjóðarinnar gerbreyttist á einni nóttu í Covid.